29.8.2007 | 14:04
Draugahúsið
Sit úti í Þjóðarbókhlöðunni að ýta þessum blessuðu ritgerðum mínum áfram. Er langt komin með Bárðar sögu og skila henni í næstu viku og þá get ég loksins byrjað á "bara"-ritgerðinni sem er nú búin að liggja heilt ár í geymslu og safna þykku ryklagi.
Þó gestum hlöðunnar hafi fjölgað síðustu dagana er alltaf jafnrólegt hér. Því er stjórnað með miklum laga- og reglugerðarbálki: " Það má ekki ...."
Hér má t.d. ekki heyrast í farsímum og oft hrekkur maður í kút þegar einhver ryðst út í stigagang með pípandi tækið í höndunum.
Það má ekki tala upphátt, - né neyta matar eða drykkjar nema niðri í kaffistofu. Ég viðurkenni að ég fer aðeins kringum þessi lög. Súkkulaðihúðaðar kaffibaunir slá á mestu kaffiþörfina milli mála. Og svo er gott að nota essemmessin til samskipta og útréttinga. Það gengur auðvitað ekki að vera alveg sambandslaus við umheiminn.
En auðvitað er þetta hinn besti staður og undan fáu að kvarta nema þessu ofantöldu.
Á morgun ætla ég að skipta um myndir í albúminu. Þið sendið mér nótu ef eitthvað lítur undarlega út því ég er enn að fikta og fikra mig áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2007 | 13:28
Hlaupið
Þá er nú Reykjavíkurmaraþonið að baki þetta árið. Við hlupum öll þrjá kílómetrana í góða veðrinu. Kristrún hljóp / gekk heilmikið sjálf en fannst mannfjöldinn í Lækjargötunni yfirþyrmandi og kom í mark í kerrunni. Við röltum svo heim eftir tjarnarbakkanum og þar var boðið upp á róður. Arnheiður reri á árabát með Helgu vinkonu sinni og svo fóru þær hvor á sinn kajakinn og fóru annan hring. Mjög vel til fundið. Við enduðum menningarneysluna í nýopnuðu Norræna húsinu og hlustuðum á músík. Góður dagur. Myndir komnar í albúmið.
Í gær var svo Melaskóli settur og Arnheiður er nú komin í sjötta bekk. Við mættum til skólasetningar; nýr skólastjóri og nýr kennari; þrír nýir krakkar í bekknum en sama kennslustofan. Að vanda var börnunum bent á að þau hefðu stækkað í sumar og þau boðin velkomin til vetrarstarfa.
Starfsemi Hagaborgar er líka að komast í fastar skorður eftir sumarfrí og flest barnanna á Putalandi komin aftur vel úthvíld eftir gott frí, alveg að rifna úr stolti yfir að vera ekki lengur á smábarnadeildunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2007 | 10:57
Reykjavíkurmaraþon
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2007 | 10:24
Vofa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2007 | 14:13
Hjólatúr í góða veðrinu
Í gær fórum við Arnheiður að húsvitja í Kópavog. Fórum svo hjólandi og á línuskautum heim, það er, hvor okkar með sínum hætti. Að sjálfsögðu áðum við í Nauthólsvík en eftir það jókst mótvindur og við enduðum með að ganga síðasta spölinn heim. Ég er búin að setja inn nokkrar myndir úr þessari ferð okkar en gengur illa að gera þær sýnilegar.
Hjólatúr
Meiri kuldinn annars, sú stutta leitaði drjúga stund í morgun að bók til að taka með sér í leikskólann og tók loks: Nú er vetur í bæ. Það er meira að segja kominn haustlitur á einhverjar hríslur hér utan við Þjóðarhlöðuna þar sem ég sit í augnablikinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2007 | 10:55
Labbitúr í góða veðrinu.
Lagði malbik undir fót í gær. Gekk fyrst upp á Hlemm með óhjákvæmilegu viðkomu í kaffihúsi á Laugaveginum. Tók strætó í Kópavoginn og arkaði heim þaðan. Hitti akkúrat á Gunnu systur á stoppustöðinni þar sem hún var á leið í heimsókn til mín vestur í bæ með Gunnar Egil í kerrunni. Því var upplagt að verða samferða þeim. Við áðum í Nauthólsvík, - ekkert nema ís og lapþunnt kaffi í boði í sundaðstöðunni. Kaffihúsið potast mjög, mjög, mjööööööööög hægt áfram. Ég sem hélt að borgin hefði ætlað að byggja nýtt hús með trukki. En kannski hefur ekki fengist nema þessi eini smiður til starfa?
Um helgina fórum við á berjaþúfurnar austur á Rangárvöllum og hreinsuðum þær eins og hægt var. Veðrið var eins fallegt og gerist á björtum sumardögum og viðraði vel á þau sem komu í heimsókn á sunnudeginum og röltu með okkur.
Eins og sjá má er kominn smá spurningalisti hér til vinstri á síðuna. Þetta er kannski ekki hávísindalegt uppsett en ég er að skoða hvernig þetta virkar nú allt saman. Svarið endilega (ég rek ekki svörin).
Kaffibollinn búinn og þarfari verk bíða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2007 | 11:46
Ný Kópavogsbók
Í sumar gaf Bókasafn Kópavogs út bók með endurminningum gamalla Kópavogsbúa. Ég fylli orðið þann flokk og á tvo kafla í téðri bók. Mæli með henni við áhugamenn um forna og horfna búskaparhætti á Kópavogshálsi og á Kársnesinu. Held bókin fáist bara í Bókasafninu og kostar að ég held bara 2000 kall. En góð lesning í síðustu helgarferðir sumarsins.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2007 | 10:51
Mér þykir rigningin góð
Sá vangaveltur í fjölmiðlum í vikunni um að sumarið væri liðið hjá. Víst er farið að skyggja á kvöldin en enn eru dagarnir sérlega mildir og gróður tekur kipp í rigningarskúrunum. Reyniberin eru að þroskast og verður nóg fæða handa fuglunum í haust þá þeir fara að safna vetrarforðanum.
Sit við ritgerðarvinnu þessa dagana. Ekki er enn farið að hilla undir lokapunktinn en set trukk í vinnuna þá grunnskólar hefja störf.
Ég vek athygli ykkar á tenglaboxi hér á vinstri jaðrinum undir fyrirsögninni Efni. Þar er til dæmis gestabók, sem ég hvet ykkur til að skrifa í og myndaalbúm með nokkrum sumarmyndum fjölskyldunnar. Set fleiri myndir inn síðar. Og þar sem þetta er nú enn allt á tilraunastigi á ég eftir að gerbreyta útlitinu við tækifæri.
Bestu helgarkveðjur, börnin góð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2007 | 11:19
Berjaþúfurnar
Góð helgi að baki, langt frá öllum formlegum útihátíðum. Það var þó smár vísir að hátíð á svæðinu þegar var kveikt í kestinum sem hafði að geyma tilfallandi spýtnarusl síðustu tveggja ára. Kösturinn var á aurum Rangár og brann vel í strekkingsvindinum á laugardagskvöldið. Einu gróðurskemmdirnar eftir þessa brennu voru nokkrar lúpínur en það sér ekki högg á vatni - svo þétt er breiðan þarna á aurunum. Ýmsar breytingar höfðu orðið á gróðri frá því við vorum síðast á ferð í bústaðnum. Til dæmis er tími blóðbergs liðinn þetta sumarið en tími berjanna runninn upp. Bláber voru orðin velþroskuð en nokkuð smá víðast hvar, sama með krækiberin en hrútaberin voru enn glerhörð þó þau væru búin að ná rauða litnum. Reyndar var nú slatti af grænjöxlum innan um. En það var berjahátíð í góða veðrinu; alsælar dömur röltu út á þúfurnar á morgnana og tíndu upp í sig í góða veðrinu eins og sjá má:
Nú vonum við bara að berjalandið fái að vera í friði þetta árið en í fyrra mætti bóndi úr sveitinni og var búinn að vaða með berjatínu yfir bláberjalyngið áður en við komumst í að tína. Bauð reyndar kartöflur í skiptum fyrir berin en ég vona að hann láti garðinn sinn duga þetta árið og sé ekki að laumast í berjalönd inni á afgirtum lóðum.
Og svona var sólarlagið á sunnudagskvöldið:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.8.2007 | 15:40
Bíllausir munkar
Hef verið á kafi í bók sem heitir Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn. Yfirkeyrður lögmaður fær hjartaáfall; heldur til Indlands þar sem hann finnur lífsgildin í afskekktu þorpi í Himalayafjöllum. Bókin minnir mig nokkuð á bókina Horfin sjónarmið sem kom út um miðja síðustu öld og fá má að láni á bókasöfnum. Reyndar er langt síðan ég las þá bók en kannski er það bara umhverfið sem þær eiga sameiginlegt. Gerast báðar í leyndum afkimum Himalayafjallgarðsins - Horfin sjónarmið gerist í Tíbet. Þessar bækur eru mjög hollar þeim sem eru að drekkja sér í vinnu og verkefnum. Nú á ég bara síðustu tvo kaflana eftir í Munknum og ætla að njóta þeirra í rólegheitum um helgina.
Njótum öll helgarinnar.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)