Fyrsti kaffibolli dagsins

Mjög óvenjulegt en nú fyrst, kl. 10.28, gefst loks tími til að setjast niður með fyrsta kaffibollann í dag. Fór út í leikskóla í morgun án kaffisopa og það segir auðvitað til sín. Kaffi vinnur nefnilega á móti gleymskugenunum og í morgun stakk ég skjólfötum á Kristrúnu ofan í tösku hjá mér því veðrið var svo gott. En var að finna þau í töskunni núna. Nenni ekki að rölta aftur út í leikskóla með fötin en vona bara að blíða dagsins haldist.

Þar sem veðrið var svo blítt í gærkvöldi pökkuðum við kvöldmatnum ofan í tösku og lögðum í lautartúr. Fyrir valinu voru hvammarnir í Kópavogi; - í sunnanverðum hálsinum. Sátum við borð milli Reynihvamms og kirkjunnar og röltum stíginn svo niður að Hafnarfjarðarveginum meðfram Kópavogslæknum. Lækurinn sá var aldrei nefndur annað en Skítalækur á mínum æskuárum í Kópavogi. Og þegar ég einu sinni datt í læknum og fór á bólakaf var mér skellt í bað heima í öllum fötum. En nú er lækurinn nokkurn veginn tandurhreinn - sér að minnsta kosti til botns - og engan óþef leggur um nágrennið. Þetta er orðin fín gönguleið með læknum og skemmtileg myndverk barna hér á þar á leiðinni.

Ætla að setjast út með síðustu dropana úr bollanum.


Sumardagur

Notalegur dagur að baki. Gamlaðist um eitt ár. Spenningurinn var auðvitað mestur hjá litlu dömunum og ég endaði kvöldið með heiðgula kórónu á hausnum, a la Hagaborg.

Stórfjölskyldan kom öll í mat, nema Gunna og Dóri, sem eru austur á fjörðum þessa dagana. En börn þeirra og barnabarnið komu. Við Kristrún fengum að passa Gunnar Egil í fyrsta skipti meðan Jóhanna og Arnheiður skruppu í Kringluna. Í fyrstu var pilturinn sáttur við hlutskipti sitt en fór svo að brýna raddböndin og háorgaði. Snarhætti svo auðvitað um leið og sást í bíl Jóhönnu renna inn í götuna.

Sit heima og reyni að halda mig við ritgerðaefnin. Læt samt hávaðann við framkvæmdir í næsta húsi fara í pirrurnar á mér. Það hafa 3 hús hér í götunni verið í stórviðhaldi í sumar. Byrjað var á því fyrsta snemma í vor og þar eru framkvæmdir á lokasnúningi og húsið orðið hið stórglæsilegasta. Fyrir nokkrum vikum var byrjað á húsinu við hliðina á okkur og það mjatlast áfram, er verið að mála það núna. Loks var nýlega byrjað á húsi úti á horni við Hofsvallagötuna og ef að líkum lætur verða framkvæmdir þar í gangi fram að vetri. Sem sé; allt heila sumarið er undirlagt af vélardrunum. Jæja hætt að tuða núna.


Síðasti júlídagurinn

Þetta árið er 31. júlí ekki opinber fánadagur. Kannski verður hann það að ári?? Enn of snemmt að segja til um það. En eins og allir vita tekur nýr forseti við völdum (ef einhver eru) þann 1. ágúst árið sem kosið er. Daginn áður er flaggað á opinberum byggingum þeim fyrrverandi til heiðurs. Þannig var flaggað 31. júlí 1980 og 1996, - og örugglega 1968 - en þar sem engar opinberar byggingar voru á Kópavogshálsinum sá ég engar fánahillingar þann dag. Hér um bil á mínútunni miðnætti pípti gemsinn og fyrsta kveðjan komin í hús. Þrátt fyrir forvitnina nennti ég ekki framúr í svefnrofunum. En kærar þakkir, Hrönn.

Blómin á heimilinu hafa blómstrað óvenju mikið í sumar. Hér koma myndir af nokkrum inniblómum:

Kaktusinn   gummiblomid junan

og útiblómin:

        astareldurinn                    begoniur

Myndirnar voru teknar í rigningunni í gær en nú hefur stytt upp og úti er milt veður og gróðurangan í lofti. En tæknin leyfir ekki að ilmurinn fylgi myndunum.


Útilega

Hungurfit

Komumst upp á hálendi um daginn með gamla, góða Geysistjaldið. Vorum eina nótt í Hungurfit.

 


Næstsíðasti júlídagurinn

Sit ein heima þennan rigningardag. Tilvalið að nota hann í smá tölvuyfirsetu. Hefi lengið langað að prófa svona tölvublaður. ..

Góð helgi að baki á Hólum. Þar voru góðir söng- og hörputónleikar á föstudagskvöldinu en annars fór helgin í rölt og bíltúra, auk þess sem Hólverjar stjönuðu við fjölskylduna í mat og drykk. Ekki spillir fyrir að vakna við eitt af fyrstu hanagölunum. Kannski ekki með þeim allra fyrstu því Guðbrandur Olgeir var orðinn hálfhás þegar ég komst fram úr. Heimferðin gekk vel með þreyttar skottur sem sváfu drjúgan hluta leiðarinnar.

Næstu vikurnar er ritgerðavinna framundan og ábyrgðarleysi sumarsins að mestu að baki.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband