Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Gullfiskarnir þrír

Þeir þrír sem eftir eru lifa góðu lífi eftir að við gátum gert ýmsar betrumbætur á aðstæðum þeirra. Nú stendur búrið aldrei í sól. Dælan hafði smám saman verið að missa virkni og stíflaðist alveg á endanum. Eftir að hafa tekið hana niður í frumeindir og hreinsað allt með eyrnapinnum gengdi hún starfi sínu að nýju. Og að endingu fékk ég nýja tegund af fóðri handa þeim sem er í stærri flögum. Það veldur því að matarleifar ef einhverjar verða setjast ekki á botninn og rotna heldur lenda í hreinsunarbúnaði dælunnar. Því hefur demantsfiskurinn og rauðhetturnar tvær verið mjög spræk öll saman að undanförnu.

Enn titrar jörð

Sem betur fer fara líkur á öðrum stórum minnkandi. Enn er þó titringur. Áðan glamraði í glerskápnum þar sem við geymum glös og borðbúnað. Heimasætan er ekki róleg og eiginlega í startholunum að hlaupa út. Sem betur fór voru börnin á Hagaborg úti að leika sér og gerðu sér ekki grein fyrir ósköpunum. Við vonum að þetta fari að ganga yfir fyrir austan.

Jarðskjálftinn

Vá, þessi var sterkur. Okkur Arnheiði brá svo að við vorum komnar út áður en skjálftinn gekk yfir en sem betur fer gekk hann samt fljótt yfir. En allt hefur hangið uppi í hillum og á veggjum. Höldum út á Hagaborg. Hvernig ætli litlu gormunum hafi orðið við? Góða ferð heim, Jóhanna og Gunni.

Mæ á fljúgandi ferð

Alltaf nóg við að vera á þessum bæ.

Þann 17. maí náði húsbóndinn fimmtugsaldri og gerðum við okkur nokkra glaða daga af því tilefni. Fórum út að borða með fjölskyldunni á sjálfum afmælisdeginum sem bar upp á laugardag. Daginn eftir var kaffi og meððí fyrir gesti og gangandi. Og svo þann þriðja í afmælinu var fiskisúpa á Barónsstíg fyrir starfsfélaga afmælisbarnsins.

Um nýliðna helgi vorum við fyrir austan í sveitasetrinu og nutum veðurblíðunnar og fuglasöngs. Tókum með okkur sjónvarp austur en vorum búin að fá loftnet uppsett í fyrrasumar. Að sjálfsögðu vildi heimasætan sjá söngvakeppnina og gekk það allt eftir. Helgin fór annars í boltaleiki, göngutúra, steinullartínslu og Parísardaga 1968, nýjustu bók Sig. Pálssonar. Mjög forvitnileg.


Vorið í stuttri heimsókn

Fallegt veður þessa dagana - en á því miður að kólna um helgina. Í gær birtist krían á Reykjavíkurtjörn og alltaf gaman að sjá hana, en betra að vera þá hjólandi með viðeigandi höfuðbúnað.

Mismargir tugir fyllast þessa dagana - í gær var það sexfaldur tugur og á laugardaginn fimmfaldur. Þá verður líka hátíð í Bodö. Vona að þið hafið átt góða heimferð, strákar. Sit í Árnagarði við skriftir þessa dagana.


Aukaföllin

Sit með blessaða ritgerðina mína að berja hana í bókarkafla. Úti er blessuð blíða. Þarf að setjast út á svalir - en verst hvað hunangsflugurnar sækja í pappírinn. Í útvarpinu er verið að rifja upp söguþráð myndarinnar um Paradísarbíóið á Sikiley. Ohhh, mig langar að sjá hana aftur.

Helgarfrí

Nú erum við komin aftur til jarðar sagði sú stutta þegar Herjólfur lagði að bryggju í Þorlákshöfn í gærkvöldi. Það var mjög gott að hafa fastalandið aftur undir fótum eftir þriggja tíma siglingu og dálítið órólega til að byrja með.

Sigldum frá jörðinni á föstudaginn í miklu blíðskaparveðri. Spegilsléttur sjór og sunnlensku fjöllin skörtuðu sínu fegursta. Framundan var þriggja daga handboltabolt stúlkna - síðasta mót vetrarins. Það voru leikir í gangi frá því snemma á morgnana og frammá kvöld en stelpurnar gátu líka kíkt aðeins á bæinn. Við fjölskyldan kíktum á hraunið og Eldfellið og röltum á Skansinn. Og röltum og röltum um bæinn með Kristrúnu. Skildum bílinn eftir í Þorlákshöfn og nýttum skóna vel í Eyjum. - Góð helgi og dauðþreyttir handboltagarpar sem stútfylltu Herjólf í gær (eða skutfylltu).


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband