Tiltekt

Skellti mér í leiðinlegasta verk í heimi. Í vor tók ég til í herbergi heimasætunnar og átti það að vera í síðasta skipti. Ætlaði henni að taka við. Síðan hafa mánuðir liðið, ryk lagst yfir allt og varla hægt að drepa niður fæti. Loks gafst ég upp en þá er ástandið þannig að ég þyrfti gasgrímu. Þetta er meira dótið sem hægt er að sanka að sér !!!

En nú er bara helgi framundan. Kvöldroðinn í gærkvöldi bar með sér þennan fallega haustdag. Frekar svalt í morgun og fyrsti kuldadagadagur haustsins. En það er svo spennandi að fara að nota kuldagallann aftur.


Enn úti í hlöðu

Sit enn og aftur úti í Þjóðarbókhlöðunni. Nenni því nú ekki mikið lengur. Nú er búið að skipta út tölvum og forritum hér sem er auðvitað af hinu góða. Verst er að ég ætlaði að vera snögg og nenni ekki að fara að setja mig inn í nýja útgáfu af office-pakkanum. Svo eru prentaramálin hér alveg sérkapituli. Með höppum og glöppum hvaða prentarar komi upp í valmynd og ekki gaman að hlaupa upp og niður um allar hæðir að finna gögnin sem maður var að senda út á prentarann. Sumt skilar sér seint og um síðir en annað bara alls ekki. Ekki batna málin hér á bæ ef maður þarf að hefta blöðin saman. Þó nóg sé af hefturum á borðunum virka fæstir þeirra. Í vor tók ég þátt í þjónustukönnun hér í safninu. Allar spurningar sneru að því að kanna hvort ónæði væri af öðrum notendum safnsins, s.s. hvort símar væru truflandi eða tal en engin hvort alltaf væri pappír til reiðu í ljósritunarvélum eða prenturum eða hvort sú þjónusta væri yfirhöfuð í lagi. Ég get leitt hjá mér samtöl og hljóðlátar hringingar en það er miklu verra að leiða pappírsleysi hjá sér. Nú og ekki var heldur spurt um þjónustu kaffistofunnar sem skiptir líka miklu máli. Þar er mikið metnaðarleysi í gangi þó það hafi nú skánað frá í vor. Helsta lesefni í rekkunum þar eru kosningabæklingarnir frá í vor. Ekki örvænta þó þið hafið misst af einhverjum í hamaganginum þá. Þetta liggur allt á kaffistofu Þjóðarbókhlöðunnar - fullir af loforðum og fögrum fyrirheitum. Hætt þusinu.

Hádegismyrkur

Umskiptin frá sumri í haust hafa verið óvenju snögg, finnst mér. Ég sit heima að puða yfir verkefnum vikunnar og nú yfir hábjartan daginn er ekki lesbjart. Svo stutt síðan enn var sól og sumarylur ...   Við fórum í Kópavoginn á laugardaginn og þá eins og nú var hellirigning. Við gerðum tilraun til að tína sólber, - þau eru fullþroska og reyndar á síðasta snúningi en það er örugglega geitungabú einhvers staðar þarna í laufþykkninu. Stelpurnar gáfust fljótlega upp en ég þrjóskaðist við - en lét loks undan eftir að einn þeirra beit mig í fingurinn.

Nýjustu málin

Það var voða gaman í skoðuninni í dag. Nýjustu mál Kristrúnar eru 99,5 sm og 15,5 kg. Og hún gat hoppað og sá alla stafi (ég sá þá ekki einu sinni alla), þekkti alla hluti og gat talið það sem átti að telja. Hún teiknaði hring en vildi ekki teikna kross - þar komu alls konar hlutir í staðinn úr blýantinum. Nú er bara róleg helgi framundan.


Allt að komast í sinn vanagang

Það tekur alltaf smátíma á haustin að koma dagskipan í fast form. Vakna og vera komin út tímanlega áður en bjallan gellur. Heimasætan hefur misst áhugann á fótboltanum í bili eftir þrjú ár á vellinum og langar að prófa eitthvað annað. Þá þarf að finna út hvað hentar. En engin breyting verður á hljóðfæranáminu og fyrsti tíminn þar verður í dag.

Litla daman er alveg komin á fast ról í leikskólarútínuna. Hún er áfram á deild með velflestum barnanna sem voru með henni á deild síðasta vetur. En nú í vetur eru þau öll jafnaldra, fædd sama ári í deildinni. Í dag erum við að fara í þriggja og hálfs árs skoðun og mín bíður spennt eftir nýjustu tölunum og sagði með tilhlökkun í morgun: "Ég hef verið svo dugleg að borða, kannski bara mælir hún [hjúkrunarkonan] að ég sé orðin fjögurra ára?"   Ja, hver veit ...


Rólegra á vesturvígstöðvunum

Í gær lauk loksins viðgerðum á húsinu hér við hliðina á okkur. Vinnan hefur tekið allt, allt of langan tíma með tilheyrandi skarkala. Í morgun fóru verktakarnir burtu með vinnulyfturnar sem eru búnar að suða daginn út og inn. Húsið er glæsilegt og nágrönnum okkur á H28 og H26 er hér með óskað til hamingju með glæsilegt hús. Það er ágætt að fá vinnufrið heima, - alltaf best að sitja við stofuborðið með kaffibollann innan seilingar. Þarf líka að setja trukk í þessar ritgerðir mínar áður en haustönnin fer á fullt.

Góð ferðahelgi í Gljúfurleit

Hefi dælt inn myndum úr ferð helgarinnar. Því miður koma þær ekki upp í réttri röð en ætti ekki að koma að sök.

Myndirnar eru birtar án ábyrgðar og skoðist á eigin ábyrgð.


Strætó-nostalgía

Fann þessa mynd í safninu mínu. Strætisvagnar Reykjavíkur keyptu þennan vagn nýjan til landsins í kringum 1970 eða upp úr því. Ég held hann hafi verið í akstri fyrir Bústaðahverfið svo til alla sína aksturstíð. Faðir minn ók honum í 15 ár á móti Jóni Jónssyni, starfsfélaga sínum. Og Jón í þó nokkurn tíma eftir daga föður míns. Loks voru eingöngu tveir vagnar orðnir eftir hjá SVR af þessari gerð. Þessum vagni var fargað en hinn gerður að safngrip. Miðað við lúxusvagnana sem nú keyra á götunum þykir þessi kannski ekki merkilegur, en hann skilaði sínu, fossvogsbúar gátu alltaf treyst á hann, - ég held honum hafi bara aldrei orðið misdægurt.

Ég eyddi drjúgum tíma í strætó á bernskuárunum. Stundum fengum við systkinin að fylgja pabba á vaktina og fórum þá hring eftir hring. Ýmislegt vakti furðu mína. Eitt var það hvernig foreldrar hótuðu börnum sínum með yfirvöldum (og bílstjórunum). Dæmi: "Sittu kyrr, annars hendir bílstjórinn þér út".  Pabbi minn var ekki trúverðugur sem grýla á börn og þá fylgdi oft: "Sérðu lögreglubílinn þarna. Löggan hendir þér út ef þú verður ekki stillt/stilltur núna". Sú kynslóð sem bjó við þessar hótanir er sú sem er með uppsteit við lögregluna um helgar.  Og sú kynslóð sem reynt er að kaupa til þess að nota þjónustu strætisvagna. Sem betur fer hafa greinilega flestir yfirunnið ótta sinn gagnvart þessum stéttum því mikill áhugi er hjá stúdentum að nýta sér strætisvagna sem samgöngumáta, a.m.k. þessar tvær vikur sem liðnar eru af skólaári. Það helst vonandi í vetur.

R14138 copy

Heimavinnandi í dag

Sit við tölvuna heima. Var að vona að málurunum á næsta húsi yrði gefið frí í tilefni rigningardags en engin miskunn hjá rigningarmagnúsi. Áfram með smjörið. Vinnulyftan er alltaf á ferð upp og niður. Ég gruna þá um að geyma fötuna niðri í garði og fara niður til að bleyta í penslinum. En ég vona að þessari vinnu fari að ljúka.

Var að setja myndir inn enn og aftur. Sumar eru af síðunni hennar Jóhönnu og fengnar að láni með góðfúslegu leyfi. Og munið svo að kvitta öðru hvoru fyrir kaffið í gestabókina. Bestu helgarkveðjur.


Nýjar myndir

Sit enn og aftur úti í draugahúsinu. Hér er ýmislegt búið að vera í skralli í morgun. Enginn notandaprentari hefur virkað og eitthvað í skralli í kerfinu líka. Og ekki bætir það ástandið að birgðir mínar af kaffibaunum eru búnar.

En myndir síðustu daga eru komnar inn. Nokkrar eru frá Gróttu á mánudaginn var - sólarlagsmyndir - en þangað fórum við í rölt og með nestiskörfuna góðu. Og á mánudaginn fórum við Arnheiður líka upp í Hallgrímskirkjuturn og þaðan eru nokkrar myndir. Að auki eru nokkrar myndir frá Keldum á Rangárvöllum en við komum þar við á leið í sveitina að sjá hvernig endurbyggingu gamla bæjarins miðaði. Nýju myndirnar eru í albúmi sem heitir ágúst2007 en aðrar myndir komnar í albúmið gamlar myndir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband