Færsluflokkur: Bloggar

Hlaupið

Þá er nú Reykjavíkurmaraþonið að baki þetta árið. Við hlupum öll þrjá kílómetrana í góða veðrinu. Kristrún hljóp / gekk heilmikið sjálf en fannst mannfjöldinn í Lækjargötunni yfirþyrmandi og kom í mark í kerrunni. Við röltum svo heim eftir tjarnarbakkanum og þar var boðið upp á róður. Arnheiður reri á árabát með Helgu vinkonu sinni og svo fóru þær hvor á sinn kajakinn og fóru annan hring. Mjög vel til fundið. Við enduðum menningarneysluna í nýopnuðu Norræna húsinu og hlustuðum á músík. Góður dagur. Myndir komnar í albúmið.

Í gær var svo Melaskóli settur og Arnheiður er nú komin í sjötta bekk. Við mættum til skólasetningar; nýr skólastjóri og nýr kennari; þrír nýir krakkar í bekknum en sama kennslustofan. Að vanda var börnunum bent á að þau hefðu stækkað í sumar og þau boðin velkomin til vetrarstarfa.

Starfsemi Hagaborgar er líka að komast í fastar skorður eftir sumarfrí og flest barnanna á Putalandi komin aftur vel úthvíld eftir gott frí, alveg að rifna úr stolti yfir að vera ekki lengur á smábarnadeildunum.


Reykjavíkurmaraþon

Á morgun rennur stóri dagurinn upp - hinn árlegi hlaupadagur. Við fjölskyldan ætlum í 7% maraþonið - þ.e. þriggja kílómetra spottann. Þá verðum við komin nógu snemma í mark til að hvetja hina alvöruhlauparana. Ég óska öllum góðs gengis og ánægjulegs hlaups á morgun hvort sem þeir fylli 100%, 50%, 24% eða 7% flokkinn, nú eða álfunum eða glönnunum sem hlaupa í Vatnsmýrinni.

Vofa

Sit á Þjóðarbókhlöðunni innan um hinar vofurnar. Náði myndunum inn með því að skella þeim aftan við þær myndir sem fyrir voru, þ.e. að safna þeim öllum í einn sarp. Það hlýtur að vera önnur leið fær en leita hennar síðar. Það styttist óðfluga í að skólar hefjist og heimasætan á bágt með að ná því að skólinn hefjist strax næstu viku. Þá sest hún í sjötta bekk hvorki meira né minna.

Hjólatúr í góða veðrinu

Í gær fórum við Arnheiður að húsvitja í Kópavog. Fórum svo hjólandi og á línuskautum heim, það er, hvor okkar með sínum hætti. Að sjálfsögðu áðum við í Nauthólsvík en eftir það jókst mótvindur og við enduðum með að ganga síðasta spölinn heim. Ég er búin að setja inn nokkrar myndir úr þessari ferð okkar en gengur illa að gera þær sýnilegar.

Hjólatúr

Hjólið

Meiri kuldinn annars, sú stutta leitaði drjúga stund í morgun að bók til að taka með sér í leikskólann og tók loks: Nú er vetur í bæ. Það er meira að segja kominn haustlitur á einhverjar hríslur hér utan við Þjóðarhlöðuna þar sem ég sit í augnablikinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Labbitúr í góða veðrinu.

Lagði malbik undir fót í gær. Gekk fyrst upp á Hlemm með óhjákvæmilegu viðkomu í kaffihúsi á Laugaveginum. Tók strætó í Kópavoginn og arkaði heim þaðan. Hitti akkúrat á Gunnu systur á stoppustöðinni þar sem hún var á leið í heimsókn til mín vestur í bæ með Gunnar Egil í kerrunni. Því var upplagt að verða samferða þeim. Við áðum í Nauthólsvík, - ekkert nema ís og lapþunnt kaffi í boði í sundaðstöðunni. Kaffihúsið potast mjög, mjög, mjööööööööög hægt áfram. Ég sem hélt að borgin hefði ætlað að byggja nýtt hús með trukki. En kannski hefur ekki fengist nema þessi eini smiður til starfa?

Um helgina fórum við á berjaþúfurnar austur á Rangárvöllum og hreinsuðum þær eins og hægt var. Veðrið var eins fallegt og gerist á björtum sumardögum og viðraði vel á þau sem komu í heimsókn á sunnudeginum og röltu með okkur.

Eins og sjá má er kominn smá spurningalisti hér til vinstri á síðuna. Þetta er kannski ekki hávísindalegt uppsett en ég er að skoða hvernig þetta virkar nú allt saman. Svarið endilega (ég rek ekki svörin).

Kaffibollinn búinn og þarfari verk bíða.


Mér þykir rigningin góð

Sá vangaveltur í fjölmiðlum í vikunni um að sumarið væri liðið hjá. Víst er farið að skyggja á kvöldin en enn eru dagarnir sérlega mildir og gróður tekur kipp í rigningarskúrunum. Reyniberin eru að þroskast og verður nóg fæða handa fuglunum í haust þá þeir fara að safna vetrarforðanum.

Sit við ritgerðarvinnu þessa dagana. Ekki er enn farið að hilla undir lokapunktinn en set trukk í vinnuna þá grunnskólar hefja störf.

Ég vek athygli ykkar á tenglaboxi hér á vinstri jaðrinum undir fyrirsögninni Efni. Þar er til dæmis gestabók, sem ég hvet ykkur til að skrifa í og myndaalbúm með nokkrum sumarmyndum fjölskyldunnar. Set fleiri myndir inn síðar. Og þar sem þetta er nú enn allt á tilraunastigi á ég eftir að gerbreyta útlitinu við tækifæri.

Bestu helgarkveðjur, börnin góð.


Berjaþúfurnar

Góð helgi að baki, langt frá öllum formlegum útihátíðum. Það var þó smár vísir að hátíð á svæðinu þegar var kveikt í kestinum sem hafði að geyma tilfallandi spýtnarusl síðustu tveggja ára. Kösturinn var á aurum Rangár og brann vel í strekkingsvindinum á laugardagskvöldið. Einu gróðurskemmdirnar eftir þessa brennu voru nokkrar lúpínur en það sér ekki högg á vatni - svo þétt er breiðan þarna á aurunum. Ýmsar breytingar höfðu orðið á gróðri frá því við vorum síðast á ferð í bústaðnum. Til dæmis er tími blóðbergs liðinn þetta sumarið en tími berjanna runninn upp. Bláber voru orðin velþroskuð en nokkuð smá víðast hvar, sama með krækiberin en hrútaberin voru enn glerhörð þó þau væru búin að ná rauða litnum. Reyndar var nú slatti af grænjöxlum innan um. En það var berjahátíð í góða veðrinu; alsælar dömur röltu út á þúfurnar á morgnana og tíndu upp í sig í góða veðrinu eins og sjá má:

berjamor

Nú vonum við bara að berjalandið fái að vera í friði þetta árið en í fyrra mætti bóndi úr sveitinni og var búinn að vaða með berjatínu yfir bláberjalyngið áður en við komumst í að tína. Bauð reyndar kartöflur í skiptum fyrir berin en ég vona að hann láti garðinn sinn duga þetta árið og sé ekki að laumast í berjalönd inni á afgirtum lóðum.

Og svona var sólarlagið á sunnudagskvöldið:

DSC05051

Fyrsti kaffibolli dagsins

Mjög óvenjulegt en nú fyrst, kl. 10.28, gefst loks tími til að setjast niður með fyrsta kaffibollann í dag. Fór út í leikskóla í morgun án kaffisopa og það segir auðvitað til sín. Kaffi vinnur nefnilega á móti gleymskugenunum og í morgun stakk ég skjólfötum á Kristrúnu ofan í tösku hjá mér því veðrið var svo gott. En var að finna þau í töskunni núna. Nenni ekki að rölta aftur út í leikskóla með fötin en vona bara að blíða dagsins haldist.

Þar sem veðrið var svo blítt í gærkvöldi pökkuðum við kvöldmatnum ofan í tösku og lögðum í lautartúr. Fyrir valinu voru hvammarnir í Kópavogi; - í sunnanverðum hálsinum. Sátum við borð milli Reynihvamms og kirkjunnar og röltum stíginn svo niður að Hafnarfjarðarveginum meðfram Kópavogslæknum. Lækurinn sá var aldrei nefndur annað en Skítalækur á mínum æskuárum í Kópavogi. Og þegar ég einu sinni datt í læknum og fór á bólakaf var mér skellt í bað heima í öllum fötum. En nú er lækurinn nokkurn veginn tandurhreinn - sér að minnsta kosti til botns - og engan óþef leggur um nágrennið. Þetta er orðin fín gönguleið með læknum og skemmtileg myndverk barna hér á þar á leiðinni.

Ætla að setjast út með síðustu dropana úr bollanum.


Sumardagur

Notalegur dagur að baki. Gamlaðist um eitt ár. Spenningurinn var auðvitað mestur hjá litlu dömunum og ég endaði kvöldið með heiðgula kórónu á hausnum, a la Hagaborg.

Stórfjölskyldan kom öll í mat, nema Gunna og Dóri, sem eru austur á fjörðum þessa dagana. En börn þeirra og barnabarnið komu. Við Kristrún fengum að passa Gunnar Egil í fyrsta skipti meðan Jóhanna og Arnheiður skruppu í Kringluna. Í fyrstu var pilturinn sáttur við hlutskipti sitt en fór svo að brýna raddböndin og háorgaði. Snarhætti svo auðvitað um leið og sást í bíl Jóhönnu renna inn í götuna.

Sit heima og reyni að halda mig við ritgerðaefnin. Læt samt hávaðann við framkvæmdir í næsta húsi fara í pirrurnar á mér. Það hafa 3 hús hér í götunni verið í stórviðhaldi í sumar. Byrjað var á því fyrsta snemma í vor og þar eru framkvæmdir á lokasnúningi og húsið orðið hið stórglæsilegasta. Fyrir nokkrum vikum var byrjað á húsinu við hliðina á okkur og það mjatlast áfram, er verið að mála það núna. Loks var nýlega byrjað á húsi úti á horni við Hofsvallagötuna og ef að líkum lætur verða framkvæmdir þar í gangi fram að vetri. Sem sé; allt heila sumarið er undirlagt af vélardrunum. Jæja hætt að tuða núna.


Síðasti júlídagurinn

Þetta árið er 31. júlí ekki opinber fánadagur. Kannski verður hann það að ári?? Enn of snemmt að segja til um það. En eins og allir vita tekur nýr forseti við völdum (ef einhver eru) þann 1. ágúst árið sem kosið er. Daginn áður er flaggað á opinberum byggingum þeim fyrrverandi til heiðurs. Þannig var flaggað 31. júlí 1980 og 1996, - og örugglega 1968 - en þar sem engar opinberar byggingar voru á Kópavogshálsinum sá ég engar fánahillingar þann dag. Hér um bil á mínútunni miðnætti pípti gemsinn og fyrsta kveðjan komin í hús. Þrátt fyrir forvitnina nennti ég ekki framúr í svefnrofunum. En kærar þakkir, Hrönn.

Blómin á heimilinu hafa blómstrað óvenju mikið í sumar. Hér koma myndir af nokkrum inniblómum:

Kaktusinn   gummiblomid junan

og útiblómin:

        astareldurinn                    begoniur

Myndirnar voru teknar í rigningunni í gær en nú hefur stytt upp og úti er milt veður og gróðurangan í lofti. En tæknin leyfir ekki að ilmurinn fylgi myndunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband