Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Nýjar myndir

sumarmyndirnar 2008


Síðustu forvöð að safna í vetrarforða...

... og komast með hann í hýði sitt. Heill hellingur af berjum fer til spillis þetta árið austur á Rangárvöllum - bæði bláber og hrútaber - sem ég hef aldrei séð jafn fallega rauð og safarík og þetta haustið.

En síðustu dagar hafa verið viðburðaríkir. Eftir góða helgi (trúi varla að það sé bara vika síðan) í sveitinni - þar sem við skoðuðum landbúnaðarsýninguna á Gaddstaðaflötum - varð orkuþurrð hjá frúnni sem leiddi til tveggja daga sjúkrahússvistar. Kom heim á miðvikudaginn og tek því rólega þessa dagana. Les og spila geisladiska og dorma undir ljúfum tónunum.

Allt er að komast í sínar föstu skorður. Skólar og tómstundir að komast á fast ról. Auðvitað er gott að eiga marga hauka í hornum og eiga góða að en ég get átt til að dotta í miðju sí/amtali. Í því fellst þó enginn áfellisdómur um viðmælandann. Stundum hefur síminn reynst full mikið áreiti og ég slekk þá en les auðvitað skilaboð öðru hverju og það stytti mér oft stundir uppi á spítala þegar ég var búin að telja plöturnar í loftinu. - Yfir og út fyrir helgina.


Ágústafmælin

Greip niður í afmælisdagabókina og fletti yfir ágústmánuð. Sé þar afmælisbörn á öllum aldri.     -Sum farin yfir móðuna miklu en önnur [mis]frá á fæti. Í dag á t.d. Reykjavíkurborg afmæli  - göngulag hennar nokkuð skrykkjótt í bili enda erfitt að skipta um gangtegund og knapa á nokkra daga fresti. Öldinni yngri en borgin er hann Óskar Jensen sem var giftur elstu föðursystur minni, henni Hansínu. Í gær hefði Kristín Lilja föðursystir mín orðið 101 árs  en hún hefur haldið upp á það handan móðunnar. Fyrri dagana í ágúst hefur skósmiðurinn Ferdinand Róbert Eiríksson skráð sig 13. ágúst 1891 og Helgur tvær; Garðarsdóttir  á fjöllum og Harðarson í Austurríki í fyrradag.

Innan um eru svo nöfn sem mig rétt rámar í og engin mynd birtist með í huga mér. Oftast er um að ræða fólk sem hefur tengst fjölskyldunni á Álfhólsveginum tímabundið en náð að mæta í einhverja fermingarveisluna og þar með verið skikkað til að færa sig til bókar.

Ótrúlegt nokk -- bara ein vika í skólabyrjun.Sú stutta er mjög spennt; náði að suða út pennaveski í bókabúðinni um daginn og gleðst yfir hverjum blýantinum sem hún nær í og kemur ofan í úttroðið pennaveskið sitt en vill til að hún er nú fústil að lána foreldrunum skriffæri þegar þeir finna ekki skriffærin sín.


Gestabókin loks komin inn

Vegna kerfisvanda hvarf gestabókin mín úr kerfinu  - og ég hefi saknað þess mjög. En ekki tjáir að deila við kerfið.  En bara bestu kveðjur mínar til lesenda - nær og fjær.

Sé að myndasafnið er að komast nokkuð til daga sinna en uppfærsla þar bíður haustlægðanna.


Hundadögum fækkar

Ég sem hélt að hundadagar væru mesta vætutíð ársins. Þeir hafa kannski verið votir á dögum Jörundar - en eins heitir þetta árið og sumarið getur orðið á þessari breiddargráðu. Og verður svo eitthvað áfram. Gaman - gaman. Var eiginlega of heitt í fyrradag. Þá fórum við systur í bæinn með litlu skotturnar til að sleikja ís á Austurvelli. Gerðum stórinnkaup í ísbúðinni Ingólfstorgi en stútuðum kræsingunum á leiðinni á völlinn. Þegar þrjú stykki höfðu farið forgörðum  gafst ég upp og tók bíl heim enda ekki gaman að flakka um bæinn í ljósum sumarfatnaði með ís- og súkkulaðitauma niður skálmar.  --- En geitungar voru í essinu sínu á Austurvelli  og voru ekki lengi að ýta við þeim þaulsætnustu. Verst þeir fljúgi ekki á næturnar. Gætu komið öllum næturgöltrurum heim til sín á kortéri.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband