2.10.2007 | 11:49
Törn á törn ofan
Við Kristrún fórum til tannlæknis í morgun og var þetta fyrsta heimsókn dömunnar. Hún var spennt að fara og stóð svo mjög vel. Fylgdist bara mjög vel með öllu og ríghélt í jólahreindýrið sem fékk að fylgja henni í heimsóknina. Allar tuttugu barnatennurnar eru komnar, beinar og fínar. Tannlæknirinn minnti hana á að nammidagur væri bara á laugardögum en í þeim málum vissi Kristrún ekki um hvað hann væri að tala. Við höfum nú ekki haldið að henni sætindum og hún veit ekki ennþá af þessum lögbundna nammidegi þegar foreldrar eru næstum því skikkaðir til að belgja börnin út af sælgæti.
Kristrún er næstum því búin að ná öllum hljóðum. Það sem helst vantar uppá er að bera fram 's' á undan nefhljóðum (n,m) og lokhljóðum (k,t,p). Um daginn hélt hún á smekk og ég ákvað að gera smátilraun að við æfðum okkur á orðinu 'smekkur' með sérstaka áherslu á 's'. Hún varð fljótlega pirruð en fór svo að tala um 'meskinn' - enda miklu auðveldara að bera orðið þannig fram, þ.e. mes-kinn. Ég ákvað snarlega að hætta öllum slíkum tilraunum enda auðveldara fyrir okkur að skilja orðið 'mekkur' en 'meskur'.
Nú hef ég vinnufrið þar til Arnheiður drepur niður fæti heima á þriðja tímanum á leið í spilatíma. Tímanum var breytt svo hún hefur bara 10 mínútur til að fara á milli en þetta sleppur nú allt saman. Það er mjög þægilegt að hafa bæði skólann og tónlistaskólann svona stutt frá.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.