Gleðilegt nýtt ár - 2008

Tvær vikur liðnar frá síðustu færslu, - jólin komin og farin og nýtt ár ýtt því gamla inn í aldanna skaut. . . Meginverkefnið þessa dagana er að innprenta dömunum - og sjálfri mér - að það séu til mánudagar, þriðjudagar  og virkum dögum tilheyri ákveðnar skyldur. Það séu ekki bara laugardagar og sunnudagar eins og var um tíma og náttfötin vinsælasti klæðnaðurinn. Strax eftir jólin lauk ég loks verkefni haustmissersins og er þeim kúrs nú lokið - fyrsti kúrsinn á masterstigi og fyrsti kúrsinn sem ég næ að ljúka alveg síðan veikindin hófust. Einum kúrs frá í vor er enn ólokið - ritgerð um Bárðar sögu Snæfellsáss er hálfkláruð hér í dótinu mínu - og svo ritgerðin hin eina sanna. En þetta kemur nú allt saman.

Það var mikil gleði á bænum þegar fór að snjóa rétt fyrir jólin. Við náðum að viðra snjóþotur og sleða í brekkunni út við Vesturbæjarlaug en á jóladag viðraði ekki til ferðar austur fyrir fjall þegar gerði byl á Hellisheiði. En við höfðum það gott um jólin og að ég tali ekki um áramótin á Hólum. Hjaltdælingar náðu að brenna gamla árið í bara þokkalegu ári þó flestir landsmenn yrðu að bíða með slíkt fram á nýárið.

Vegna anna dagana fyrir jól náði ég bara að skrifa nokkur jólakort. Var þó komin í emmið í stafrófinu þegar ég sá að með því að stökkva niður í miðbæ næði ég að skutla þeim inn í pósthúsið. Á mínútunni klukkan fimm á þorláksmessudag náði ég sem sé að smeygja bunka inn fyrir þröskuld pósthússins í óþökk og óánægju starfsmanna. Þeir hefndu síðan með því að geyma bunkann fram á nýja árið og kortin mín voru borin út held ég 3. janúar. Næsta ár byrja ég aftast á listanum mínum ef stefnir í ámóta tímaþröng !!! En ég fer að bæta inn nýju myndaalbúmi frá síðustu mánuðum. Er að velja úr safninu ...


"Allt" - Búin að öllu?

Algengasta spurningin þessa dagana er "Ertu búin að öllu"?  Hvað er þetta "allt"? Hér bíða jólakort áritunar og sendingar - ryk í hverju skúmaskoti. Smáýkjur, en meira stressið sem getur gripið fólk. Hér gengur allt sinn rólega gang og jólin koma á morgun hvort sem ég eða aðrir verða búnir að "öllu" eður ei. Þau jól sem ég stakk af til fjalla hringdu jólabjöllur stundvíslega klukkan sex á aðfangadag við Hnausapoll. - En það er útséð með það að kort komist til skila fyrir jól svo nú sem stundum áður sendi ég áramótakveðju póstleiðis en bestu jólakveðjur vinir góðir.

Bara verkefni ennþá

Allt sem getur setið á hakanum situr þar. Stór þessi haki núna og verður seinlegt að vinna upp það sem þar situr. Allt stúss hefur verið í lágmarki. Sem betur fer bjargaði Melabúðin jólabakstrinum en svona er þetta nú bara stundum . . .

Óveður

Meiri óveðurskaflinn núna. Ætlaði nú ekkert að gefa eftir í morgun og við mæðgur örkuðum allar þrjár útí veðrið tímanlega. Byrjuðum í Melaskóla. Þar stóð veðrið svo upp á dyrnar í nýjaskóla að við þurftum að fara krókaleiðir til að koma Arnheiði í stofuna hennar. Þar var fámennt og góðmennt - bara þau börn mætt sem búa næst skólanum. En jæja, svo stóð til að fara með Kristrúnu á Hagaborg, en þegar til kom lagði ég ekki í að fara með hana yfir Neshagann - svo við röltum aftur heim. Og áður en ég næði að hella upp á kaffi hringdi Arnheiður úr skólanum. Það var verið að senda þau heim sem hægt var. Svo nú erum við þrjár heima að dunda. Systurnar reyna á þolrif hvor annarrar til hins ítrasta. Sú stutta gerir orðið í því að stríða stóru systur vitandi að það getur kallað á sterk viðbrögð. Gerði henni þann óleik að gleypa fínu súkkulaðihúðuðu kexkökuna sem Stúfur setti í skóna í nótt. Hún var þá búin með sína - getur ekki treint sér góðgætið eins og sú stóra gerir.

Í dag er stefnt að jólaballi í leikskólanum eins og í velflestum leikskólum. Það er ekki búið að afskrifa það enn - svo við sjáum til. Og í dag er stefnt að hljóðfæraleik í bankanum úti á Hótel Sögu. Veit ekki hvort verður fært þangað um miðjan dag með þunga byrðina.

Hmmm. Þarf að finna eitthvað til að fá þær til að dunda við. Baka smákökur? Kannski bara. Ef allt hráefni er til - nenni ekki út í búð. Ekki einu sinni þó vanti kaffi. Neskaffið verður að duga þar til veðri slotar. Þarf að fara koma mér upp óveðursforða af kaffi .................

Jæja, var góð hugmynd að hræra í deig. Nú er vopnahlé milli systranna sem dunda við að forma bóndakökur og setja á bakstursplöturnar. Búið er að blása bankaspileríið af en ekki jólaballinu. En þessi aðventuveðurtörn fer að minna á óveðrið sem Gunnar Gunnarsson lýsir í bókinni Aðventu. Ekki vildi ég liggja úti við í smölun núna. Er búin að prófa að liggja í snjóskafli á þessum árstíma með gaddfreðinn jólamatinn. Hann er nú girnilegri upphitaður við dúkað jólaborð undir ljúfum jólatónum.


Aðventa

Ár og dagur frá síðustu færslu hér, jamm. Ekki er það nú vegna jólahamfara - þær hamfarir hafa löngum siglt fram hjá heimilinu hér þó þær hafi stungið sér víða niður annars staðar. Enda þungt í heimasætunni þegar hún kemur úr heimsókn þar sem hafa verið borin full kökubox á borð. Hér skröltir ein kaka í hverju boxi og bergmálið heyrist um alla íbúð ef einhver hróflar við léttum boxunum. Eins gott að þau voru ekki úti á svölum í nótt. Þá hefði þau fokið um alla Mela með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Jólasveinarnir eru farnir að tínast til byggða og farnir að koma hér við aftur eftir nokkurra ára hvíld á okkur. Kristrún er farin að læra á kerfið og þá vilja stóru börnin ekki verða útundan. Jólasveinarnir hættu að heimsækja hana þegar hún komst að hinu sanna þá hún byrjaði í skóla. Var reyndar lengi hálffúl við þá bekkjarsystur sína sem sagði henni hið sanna í málinu. Um tíma tókst henni þó að kría fram frekari heimsóknir en fór þá að nýta sér samböndin við sveinka og senda hinar ólíklegust óskir á jólasveinaverkstæðið (og kvartanir þá hann uppfyllti ekki allar óskir). - Nú enn hefur sveinki gefist upp, setur eitthvað í alla tiltæka skó.

Um helgina fórum við á Árbæjarsafn að sjá jólasýninguna. Vorum stödd í veitingasal að fá okkur heitt súkkulaði og pönnsur þegar lopaklæddir sveinar mættu á svæðið. Þá langaði að sjálfsögðu líka í trakteringar eftir kuldann úti. En nei-i. Börnin sem höfðu verið með læti og stympingar í röðinni voru ekki lengi að stilla sér upp í hina fullkomnu biðröð, setja upp englasvipinn og "nei, ekki ryðjast fremst, þið verðið að fara aftast í röðina". Engin miskunn á þeim bæ.

Hér á bæ er búinn að vera pestargangur síðustu vikurnar og öll ritgerða- pg verkefnavinna legið niðri. Sem og allur jólaundirbúningur. Víða í kring er búið að setja upp glæsilegar skreytingar en veðrið hefur verið þannig að undanförnu að fína jólaskrautið í besta falli fýkur um koll en hangir í festingunum og í versta falli fýkur úti í buskann. Örugglega langt á haf út miðað við vindstyrkinn. Það hljóta að slæðast nokkrar jólaseríur og plasttré í togaravörpurnar út af Reykjaneshrygg á næstunni.

Jæja þarf að fara að rölta út á Hagaborg.


Allt afmæli búið

Mikil hátíðahöld hafa verið hér síðustu daga - enda stóráfangi að verða 11 ára. Þó nokkuð hefur safnast fyrir af myndum sem bíða uppsetningar á síðuna. En það bíður þar til um hægist í skólanum. Þá verður þessi bloggsíða tekin alveg í gegn líka og einhver hluti hennar, a.m.k. myndirnar settar í velvalda áskrift. Sendið mér tölvupóst til að komast á áskrifendalistann. Smellið hér. Njótið dagsins.

Enn og aptur

kominn föstudagur. Aldrei þessu vant komumst við á tónleika í gærkvöldi úti í Háskólabíói. Takk fyrir Lóa að sitja yfir stubbum. Nú í morgun var myrkur og steypirigning og sú stutta var til í allt nema að fara út. Þurfti að skoða allt sem hún fann, - löngu aflagt dót og aldrei þessu vant var ekkert of smábarnalegt svo hún gæti ekki leikið sér með það. Og tókum allar krókaleiðar sem hægt var á leiðinni út á Hagaborg. Vorum enda komnar þangað á ellefta tímanum. Og við hliðið á Hagaborg á útleið horfði ég á eftir strætó bruna framhjá - og beið þá í hálftíma eftir næsta. Búin að fá smá hársnyrtingu fyrir veisluhöld helgarinnar. Hér verður nebbbnnniiiilega veislukaffi klukkan tvö á sunnudaginn.


Úti á safni

Jæja, dagurinn var nú ekki svo slæmur. Við fórum á rölt mæðgurnar, komum við í búðinni og keyptum þvottaduft, sem vonandi reynist betur. Röltum út í tónlistarskóla líka með nikkuna en þangað til við eignumst eigið hljóðfæri ferjum við nikku skólans fram og til baka tvisvar í viku. Svo var bara stórþvottadagur í dag með nýja þvottaduftinu. Öll sængurföt og nærföt dömunnar litlu. Vonandi gengur þessi kláði yfir fljótlega. Það er erfitt að stilla sig um að klóra sér í útbrotum þegar maður er bara þriggja ára. - En verkefni dagsins gengu hægt og ég því komin út á safn að taka smátörn.

Tvær heima

Við Kristrún erum tvær heima í dag. Hún er bíldótt í framan sem ég kenni um að þvottaefnið sem við höfum notað hefur ekki fengist um tíma og Kristrún er eins og stóra systir. Bara ein tegund af þvottaefni kemur til greina. En stóra systir er greinilega komin yfir þann vanda enda að ljúka ellefta árinu innan skamms.

Það er því dekurdagur fyrir dúkkurnar. Þvottapokinn og læknataskan eru komin á loft og það verða því hreinar og hraustar dúkkur og bangsar sem ganga til náða í kvöld. Ég vona að sú afþreying dugi til hádegis og þá þurfum við að finna upp á einhverju öðru.


Vetur kóngur

Nú er gormánuður hafinn og auðvitað ætti maður að vera á haus í slíkri vinnu en best að láta við orðin sitja. Á sunnudaginn horfði ég á beðin í garðinum okkar og tók eftir að þau voru að fara á kaf í arfa. Nennti ekki að fara að reita illgresi og vona að það verði allt horfið þá snjóa leysir í vor.

Kristrún var hæstánægð þegar hún leit út á hvítt umhverfið í gærmorgun og vildi endilega fara á snjóþotu í leikskólann. Ekki varð þó af því enda var búið að sandbera gangstéttina áður en við komumst af stað.

Nú er vetrarfrí framundan í grunnskólum og við notum okkur það. Skjótumst austur yfir Elliðaárnar og Ölfusá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband