Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Vorannirnar

Sit þessa fallegu daga við tölvuna - en ekki hvað. Er að breyta ritgerðinni minni í hálftímafyrirlestur og það er bara heilmikil vinna. Er samt alltaf á leið með að setja inn myndir af gönguskíðagörpum á Akureyri í dymbilvikunni. En drífið ykkur út í góða veðrið - allir sem vettlingi geta valdið - á hvaða breiddarbaug sem þið standið.


Heillaóskir

Sendi öllum, nærri og fjarri, páskakveðjur.

Sérstakar kveðjur til Möggu vinkonu sem átti afmæli - aldrei þessu vant á páskadag - og samkvæmt fréttum muntu Magga næst eiga afmæli á páskadag þá þú nærð 300 ára aldrinum.

Og brúðhjónin á Flórída fá alveg sérstaklega góðar kveðjur frá okkur öllum sem söknuðum þess mjög að vera ekki með ykkur í gær. Hlökkum bara til að sjá ykkur.

En við komum heim frá Akureyri á laugardaginn eftir góða viku þar í bæ. Báðar stelpurnar náðu að komast á gönguskíði og næstu daga dunda ég við að setja inn nokkrar skíðamyndir.

Hrafninn á Akureyri hagar sér nokkuð undarlega; heldur til í flokkum í trjám - en lætur sem hann sjái ekki ljósastaurana. - Hvað segja fuglafræðingar um það???


Tjaldurinn mættur á Ægissíðuna

Fór í smárölt þá daman litla var komin á leikskólann. Skrapp niður í fjöru. Sá einn tjald á vappi í þanginu að leita sér matar. Horfði á hann dágóða stund - allt þar til kona í kraftgöngu kom með miklum bægslagangi, horfði hvorki til hægri né vinstri og kom styggð að tjaldinum sem flögraði burt.

Þó stóra ritgerðin sé að baki hafi annirnar ekki minnkað að ráði. Í gær gerði ég mér grein fyrir að hálf vika væri í skil að tíu síðna ritgerð sem ég er ekki byrjuð á, þrjár vikur í hálftíma fyrirlestur sem ég ætla að halda um stóru ritgerðina og svo væru tvær ritgerðir og smáfyrirlestur fyrir vorið. Tók þá erfiðu ákvörðun að slaufa öðrum kúrsinum og einbeita mér að fyrirlestrinum næstu vikurnar og svo Gísla sögu. Vil ekki lenda í því stressi að taka ekki eftir vorboðunum og styggja þá.

Gangið hægt um allar dyr núna og styggið ekki vorboðana. Þeir eru ekki allir fleygir. Ekki traðka á krókusunum, páskaliljunum og jafnvel túlipönunum sem áræða að stinga nefinu upp úr moldinu núna.


Bókahlaðborð

Stórar bækur - litlar bækur - þykkar bækur - léttar bækur - þunnar bækur - skemmtilegar bækur - leiðinlegar bækur - frumsamdar bækur - þýddar bækur - skáldsögur - fræðibækur - barnabækur - eldgamlar bækur - splunkunýjar bækur - reifarar - ævisögur - myndabækur - hvaða bækur sem er. Alltaf jafn gaman að kíkja á bókamarkaðinn. Við fórum og grynnkuðum aðeins að birgðunum þar um helgina en erum enn að finna nýjum bókum stað í bókahillum heimilisins.

bokahladbord


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband