Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Mér þykir rigningin góð

Sá vangaveltur í fjölmiðlum í vikunni um að sumarið væri liðið hjá. Víst er farið að skyggja á kvöldin en enn eru dagarnir sérlega mildir og gróður tekur kipp í rigningarskúrunum. Reyniberin eru að þroskast og verður nóg fæða handa fuglunum í haust þá þeir fara að safna vetrarforðanum.

Sit við ritgerðarvinnu þessa dagana. Ekki er enn farið að hilla undir lokapunktinn en set trukk í vinnuna þá grunnskólar hefja störf.

Ég vek athygli ykkar á tenglaboxi hér á vinstri jaðrinum undir fyrirsögninni Efni. Þar er til dæmis gestabók, sem ég hvet ykkur til að skrifa í og myndaalbúm með nokkrum sumarmyndum fjölskyldunnar. Set fleiri myndir inn síðar. Og þar sem þetta er nú enn allt á tilraunastigi á ég eftir að gerbreyta útlitinu við tækifæri.

Bestu helgarkveðjur, börnin góð.


Berjaþúfurnar

Góð helgi að baki, langt frá öllum formlegum útihátíðum. Það var þó smár vísir að hátíð á svæðinu þegar var kveikt í kestinum sem hafði að geyma tilfallandi spýtnarusl síðustu tveggja ára. Kösturinn var á aurum Rangár og brann vel í strekkingsvindinum á laugardagskvöldið. Einu gróðurskemmdirnar eftir þessa brennu voru nokkrar lúpínur en það sér ekki högg á vatni - svo þétt er breiðan þarna á aurunum. Ýmsar breytingar höfðu orðið á gróðri frá því við vorum síðast á ferð í bústaðnum. Til dæmis er tími blóðbergs liðinn þetta sumarið en tími berjanna runninn upp. Bláber voru orðin velþroskuð en nokkuð smá víðast hvar, sama með krækiberin en hrútaberin voru enn glerhörð þó þau væru búin að ná rauða litnum. Reyndar var nú slatti af grænjöxlum innan um. En það var berjahátíð í góða veðrinu; alsælar dömur röltu út á þúfurnar á morgnana og tíndu upp í sig í góða veðrinu eins og sjá má:

berjamor

Nú vonum við bara að berjalandið fái að vera í friði þetta árið en í fyrra mætti bóndi úr sveitinni og var búinn að vaða með berjatínu yfir bláberjalyngið áður en við komumst í að tína. Bauð reyndar kartöflur í skiptum fyrir berin en ég vona að hann láti garðinn sinn duga þetta árið og sé ekki að laumast í berjalönd inni á afgirtum lóðum.

Og svona var sólarlagið á sunnudagskvöldið:

DSC05051

Bíllausir munkar

Hef verið á kafi í bók sem heitir Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn. Yfirkeyrður lögmaður fær hjartaáfall; heldur til Indlands þar sem hann finnur lífsgildin í afskekktu þorpi í Himalayafjöllum. Bókin minnir mig nokkuð á bókina Horfin sjónarmið sem kom út um miðja síðustu öld og fá má að láni á bókasöfnum. Reyndar er langt síðan ég las þá bók en kannski er það bara umhverfið sem þær eiga sameiginlegt. Gerast báðar í leyndum afkimum Himalayafjallgarðsins - Horfin sjónarmið gerist í Tíbet. Þessar bækur eru mjög hollar þeim sem eru að drekkja sér í vinnu og verkefnum. Nú á ég bara síðustu tvo kaflana eftir í Munknum og ætla að njóta þeirra í rólegheitum um helgina.

Njótum öll helgarinnar.


Fyrsti kaffibolli dagsins

Mjög óvenjulegt en nú fyrst, kl. 10.28, gefst loks tími til að setjast niður með fyrsta kaffibollann í dag. Fór út í leikskóla í morgun án kaffisopa og það segir auðvitað til sín. Kaffi vinnur nefnilega á móti gleymskugenunum og í morgun stakk ég skjólfötum á Kristrúnu ofan í tösku hjá mér því veðrið var svo gott. En var að finna þau í töskunni núna. Nenni ekki að rölta aftur út í leikskóla með fötin en vona bara að blíða dagsins haldist.

Þar sem veðrið var svo blítt í gærkvöldi pökkuðum við kvöldmatnum ofan í tösku og lögðum í lautartúr. Fyrir valinu voru hvammarnir í Kópavogi; - í sunnanverðum hálsinum. Sátum við borð milli Reynihvamms og kirkjunnar og röltum stíginn svo niður að Hafnarfjarðarveginum meðfram Kópavogslæknum. Lækurinn sá var aldrei nefndur annað en Skítalækur á mínum æskuárum í Kópavogi. Og þegar ég einu sinni datt í læknum og fór á bólakaf var mér skellt í bað heima í öllum fötum. En nú er lækurinn nokkurn veginn tandurhreinn - sér að minnsta kosti til botns - og engan óþef leggur um nágrennið. Þetta er orðin fín gönguleið með læknum og skemmtileg myndverk barna hér á þar á leiðinni.

Ætla að setjast út með síðustu dropana úr bollanum.


Sumardagur

Notalegur dagur að baki. Gamlaðist um eitt ár. Spenningurinn var auðvitað mestur hjá litlu dömunum og ég endaði kvöldið með heiðgula kórónu á hausnum, a la Hagaborg.

Stórfjölskyldan kom öll í mat, nema Gunna og Dóri, sem eru austur á fjörðum þessa dagana. En börn þeirra og barnabarnið komu. Við Kristrún fengum að passa Gunnar Egil í fyrsta skipti meðan Jóhanna og Arnheiður skruppu í Kringluna. Í fyrstu var pilturinn sáttur við hlutskipti sitt en fór svo að brýna raddböndin og háorgaði. Snarhætti svo auðvitað um leið og sást í bíl Jóhönnu renna inn í götuna.

Sit heima og reyni að halda mig við ritgerðaefnin. Læt samt hávaðann við framkvæmdir í næsta húsi fara í pirrurnar á mér. Það hafa 3 hús hér í götunni verið í stórviðhaldi í sumar. Byrjað var á því fyrsta snemma í vor og þar eru framkvæmdir á lokasnúningi og húsið orðið hið stórglæsilegasta. Fyrir nokkrum vikum var byrjað á húsinu við hliðina á okkur og það mjatlast áfram, er verið að mála það núna. Loks var nýlega byrjað á húsi úti á horni við Hofsvallagötuna og ef að líkum lætur verða framkvæmdir þar í gangi fram að vetri. Sem sé; allt heila sumarið er undirlagt af vélardrunum. Jæja hætt að tuða núna.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband