Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
23.12.2007 | 10:08
"Allt" - Búin að öllu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2007 | 13:23
Bara verkefni ennþá
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2007 | 11:26
Óveður
Meiri óveðurskaflinn núna. Ætlaði nú ekkert að gefa eftir í morgun og við mæðgur örkuðum allar þrjár útí veðrið tímanlega. Byrjuðum í Melaskóla. Þar stóð veðrið svo upp á dyrnar í nýjaskóla að við þurftum að fara krókaleiðir til að koma Arnheiði í stofuna hennar. Þar var fámennt og góðmennt - bara þau börn mætt sem búa næst skólanum. En jæja, svo stóð til að fara með Kristrúnu á Hagaborg, en þegar til kom lagði ég ekki í að fara með hana yfir Neshagann - svo við röltum aftur heim. Og áður en ég næði að hella upp á kaffi hringdi Arnheiður úr skólanum. Það var verið að senda þau heim sem hægt var. Svo nú erum við þrjár heima að dunda. Systurnar reyna á þolrif hvor annarrar til hins ítrasta. Sú stutta gerir orðið í því að stríða stóru systur vitandi að það getur kallað á sterk viðbrögð. Gerði henni þann óleik að gleypa fínu súkkulaðihúðuðu kexkökuna sem Stúfur setti í skóna í nótt. Hún var þá búin með sína - getur ekki treint sér góðgætið eins og sú stóra gerir.
Í dag er stefnt að jólaballi í leikskólanum eins og í velflestum leikskólum. Það er ekki búið að afskrifa það enn - svo við sjáum til. Og í dag er stefnt að hljóðfæraleik í bankanum úti á Hótel Sögu. Veit ekki hvort verður fært þangað um miðjan dag með þunga byrðina.
Hmmm. Þarf að finna eitthvað til að fá þær til að dunda við. Baka smákökur? Kannski bara. Ef allt hráefni er til - nenni ekki út í búð. Ekki einu sinni þó vanti kaffi. Neskaffið verður að duga þar til veðri slotar. Þarf að fara koma mér upp óveðursforða af kaffi .................
Jæja, var góð hugmynd að hræra í deig. Nú er vopnahlé milli systranna sem dunda við að forma bóndakökur og setja á bakstursplöturnar. Búið er að blása bankaspileríið af en ekki jólaballinu. En þessi aðventuveðurtörn fer að minna á óveðrið sem Gunnar Gunnarsson lýsir í bókinni Aðventu. Ekki vildi ég liggja úti við í smölun núna. Er búin að prófa að liggja í snjóskafli á þessum árstíma með gaddfreðinn jólamatinn. Hann er nú girnilegri upphitaður við dúkað jólaborð undir ljúfum jólatónum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 15:42
Aðventa
Ár og dagur frá síðustu færslu hér, jamm. Ekki er það nú vegna jólahamfara - þær hamfarir hafa löngum siglt fram hjá heimilinu hér þó þær hafi stungið sér víða niður annars staðar. Enda þungt í heimasætunni þegar hún kemur úr heimsókn þar sem hafa verið borin full kökubox á borð. Hér skröltir ein kaka í hverju boxi og bergmálið heyrist um alla íbúð ef einhver hróflar við léttum boxunum. Eins gott að þau voru ekki úti á svölum í nótt. Þá hefði þau fokið um alla Mela með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Jólasveinarnir eru farnir að tínast til byggða og farnir að koma hér við aftur eftir nokkurra ára hvíld á okkur. Kristrún er farin að læra á kerfið og þá vilja stóru börnin ekki verða útundan. Jólasveinarnir hættu að heimsækja hana þegar hún komst að hinu sanna þá hún byrjaði í skóla. Var reyndar lengi hálffúl við þá bekkjarsystur sína sem sagði henni hið sanna í málinu. Um tíma tókst henni þó að kría fram frekari heimsóknir en fór þá að nýta sér samböndin við sveinka og senda hinar ólíklegust óskir á jólasveinaverkstæðið (og kvartanir þá hann uppfyllti ekki allar óskir). - Nú enn hefur sveinki gefist upp, setur eitthvað í alla tiltæka skó.
Um helgina fórum við á Árbæjarsafn að sjá jólasýninguna. Vorum stödd í veitingasal að fá okkur heitt súkkulaði og pönnsur þegar lopaklæddir sveinar mættu á svæðið. Þá langaði að sjálfsögðu líka í trakteringar eftir kuldann úti. En nei-i. Börnin sem höfðu verið með læti og stympingar í röðinni voru ekki lengi að stilla sér upp í hina fullkomnu biðröð, setja upp englasvipinn og "nei, ekki ryðjast fremst, þið verðið að fara aftast í röðina". Engin miskunn á þeim bæ.
Hér á bæ er búinn að vera pestargangur síðustu vikurnar og öll ritgerða- pg verkefnavinna legið niðri. Sem og allur jólaundirbúningur. Víða í kring er búið að setja upp glæsilegar skreytingar en veðrið hefur verið þannig að undanförnu að fína jólaskrautið í besta falli fýkur um koll en hangir í festingunum og í versta falli fýkur úti í buskann. Örugglega langt á haf út miðað við vindstyrkinn. Það hljóta að slæðast nokkrar jólaseríur og plasttré í togaravörpurnar út af Reykjaneshrygg á næstunni.
Jæja þarf að fara að rölta út á Hagaborg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)