Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Vetur kóngur

Nú er gormánuður hafinn og auðvitað ætti maður að vera á haus í slíkri vinnu en best að láta við orðin sitja. Á sunnudaginn horfði ég á beðin í garðinum okkar og tók eftir að þau voru að fara á kaf í arfa. Nennti ekki að fara að reita illgresi og vona að það verði allt horfið þá snjóa leysir í vor.

Kristrún var hæstánægð þegar hún leit út á hvítt umhverfið í gærmorgun og vildi endilega fara á snjóþotu í leikskólann. Ekki varð þó af því enda var búið að sandbera gangstéttina áður en við komumst af stað.

Nú er vetrarfrí framundan í grunnskólum og við notum okkur það. Skjótumst austur yfir Elliðaárnar og Ölfusá.


Haustlægðir í s-innu sínu

Það hlýtur að vera von á stórviðri núna, - hef reyndar ekki litið á veðurspána - en loftvogin hríðfellur núna. Veðrið var hressandi þegar við mæðgur röltum út á leikskóla í morgun. Kristrúnu leist reyndar ekki á blikuna um tíma "Nú förum við að fjúka mamma". En svo var svo gaman að ösla í öllum pollunum að hún gleymdi sér alveg. Reyndar voru það nú frekar tjarnir en pollar sums staðar. Öll niðurföll stífluð af laufinu.

Var að taka aðeins til í myndum áðan og ætla að setja nokkrar inn á eftir.  Arnheiður er að verða nokkuð lunkinn ljósmyndari og eru nokkrar myndanna frá henni. Og Kristrún dundar við að teikna og lánar líka myndir í albúmið. Nýju myndirnar eru hér: albúm.


Ritgerðartörn

Sé að færslur hér hafa verið nokkuð gisnar þennan mánuðinn. Ég tók í síðustu viku aftur til við gömlu, góðu "Bara-ritgerðina" og náði nokkuð góðri skorpu. Hef síðan legið yfir verkefni í gær og í dag og andagiftin verið á frostmarki. Í gær fór loftvogin okkar góða í sögulegt lágmark (á 17 mánaða tímabili) en fer hækkandi núna, þó vísirinn sé nokkuð brokkgengur.

Helgin var góð. Veisla í Garðabænum á laugardaginn og gaman að sjá sístækkandi og nýttlærandi Garðbæingana ungu. Fórum stóran rúnt um Álftanesið í leiðinni og skoðuðum Bessastaði og ný hverfi í sveitinni þar. Vorum svo allt í einu komin inn í land Hafnarfjarðar, að elliheimilinu þar í bæ.

Á sunnudaginn hjóluðum við út í Nauthólsvík í góða veðrinu. Þar gengur mjög hægt að koma upp nýju kaffihúsi en það kom ekki að sök, við vorum vel nestuð enda verða sumir alveg hreint ótrúlega svangir og þyrstir um leið og heimilið fer í hvarf. En þarna hafa nokkrar framkvæmdir verið í rólegheitum. - Einhverjar gamlar gönguleiðir orðnar bílfærar og búið að girða af lóð HR.


Enn einu sinni kaffileysi

Sit úti í hlöðu. Hér er heitt í lofti og til að kóróna ástandið varð veskið eftir heima þannig að ég er ekki borgunarmaður fyrir hressingu. Og langar alveg svakaleg í kaffisopa. Ætti kannski að labba um svæðið og bjóða penna og velyddaða blýanta til kaups.

Dalamyndir

Var að dæla inn myndum úr ferð um söguslóðir Laxdælu síðustu helgi. Það er alltaf gaman að sjá sögur lifna við. Ég á örugglega eftir að fara þarna aftur og ganga eitthvað um þessar slóðir. Þeir eru fallegir Dalirnir, hver öðrum fremri.

Törn á törn ofan

Við Kristrún fórum til tannlæknis í morgun og var þetta fyrsta heimsókn dömunnar. Hún var spennt að fara og stóð svo mjög vel. Fylgdist bara mjög vel með öllu og ríghélt í jólahreindýrið sem fékk að fylgja henni í heimsóknina. Allar tuttugu barnatennurnar eru komnar, beinar og fínar. Tannlæknirinn minnti hana á að nammidagur væri bara á laugardögum en í þeim málum vissi Kristrún ekki um hvað hann væri að tala. Við höfum nú ekki haldið að henni sætindum og hún veit ekki ennþá af þessum lögbundna nammidegi þegar foreldrar eru næstum því skikkaðir til að belgja börnin út af sælgæti.

Kristrún er næstum því búin að ná öllum hljóðum. Það sem helst vantar uppá er að bera fram 's' á undan nefhljóðum (n,m) og lokhljóðum (k,t,p). Um daginn hélt hún á smekk og ég ákvað að gera smátilraun að við æfðum okkur á orðinu 'smekkur' með sérstaka áherslu á 's'. Hún varð fljótlega pirruð en fór svo að tala um 'meskinn' - enda miklu auðveldara að bera orðið þannig fram, þ.e. mes-kinn. Ég ákvað snarlega að hætta öllum slíkum tilraunum enda auðveldara fyrir okkur að skilja orðið 'mekkur' en 'meskur'.

Nú hef ég vinnufrið þar til Arnheiður drepur niður fæti heima á þriðja tímanum á leið í spilatíma. Tímanum var breytt svo hún hefur bara 10 mínútur til að fara á milli en þetta sleppur nú allt saman. Það er mjög þægilegt að hafa bæði skólann og tónlistaskólann svona stutt frá.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband