12.3.2008 | 10:43
Tjaldurinn mættur á Ægissíðuna
Fór í smárölt þá daman litla var komin á leikskólann. Skrapp niður í fjöru. Sá einn tjald á vappi í þanginu að leita sér matar. Horfði á hann dágóða stund - allt þar til kona í kraftgöngu kom með miklum bægslagangi, horfði hvorki til hægri né vinstri og kom styggð að tjaldinum sem flögraði burt.
Þó stóra ritgerðin sé að baki hafi annirnar ekki minnkað að ráði. Í gær gerði ég mér grein fyrir að hálf vika væri í skil að tíu síðna ritgerð sem ég er ekki byrjuð á, þrjár vikur í hálftíma fyrirlestur sem ég ætla að halda um stóru ritgerðina og svo væru tvær ritgerðir og smáfyrirlestur fyrir vorið. Tók þá erfiðu ákvörðun að slaufa öðrum kúrsinum og einbeita mér að fyrirlestrinum næstu vikurnar og svo Gísla sögu. Vil ekki lenda í því stressi að taka ekki eftir vorboðunum og styggja þá.
Gangið hægt um allar dyr núna og styggið ekki vorboðana. Þeir eru ekki allir fleygir. Ekki traðka á krókusunum, páskaliljunum og jafnvel túlipönunum sem áræða að stinga nefinu upp úr moldinu núna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.