14.12.2007 | 11:26
Óveður
Meiri óveðurskaflinn núna. Ætlaði nú ekkert að gefa eftir í morgun og við mæðgur örkuðum allar þrjár útí veðrið tímanlega. Byrjuðum í Melaskóla. Þar stóð veðrið svo upp á dyrnar í nýjaskóla að við þurftum að fara krókaleiðir til að koma Arnheiði í stofuna hennar. Þar var fámennt og góðmennt - bara þau börn mætt sem búa næst skólanum. En jæja, svo stóð til að fara með Kristrúnu á Hagaborg, en þegar til kom lagði ég ekki í að fara með hana yfir Neshagann - svo við röltum aftur heim. Og áður en ég næði að hella upp á kaffi hringdi Arnheiður úr skólanum. Það var verið að senda þau heim sem hægt var. Svo nú erum við þrjár heima að dunda. Systurnar reyna á þolrif hvor annarrar til hins ítrasta. Sú stutta gerir orðið í því að stríða stóru systur vitandi að það getur kallað á sterk viðbrögð. Gerði henni þann óleik að gleypa fínu súkkulaðihúðuðu kexkökuna sem Stúfur setti í skóna í nótt. Hún var þá búin með sína - getur ekki treint sér góðgætið eins og sú stóra gerir.
Í dag er stefnt að jólaballi í leikskólanum eins og í velflestum leikskólum. Það er ekki búið að afskrifa það enn - svo við sjáum til. Og í dag er stefnt að hljóðfæraleik í bankanum úti á Hótel Sögu. Veit ekki hvort verður fært þangað um miðjan dag með þunga byrðina.
Hmmm. Þarf að finna eitthvað til að fá þær til að dunda við. Baka smákökur? Kannski bara. Ef allt hráefni er til - nenni ekki út í búð. Ekki einu sinni þó vanti kaffi. Neskaffið verður að duga þar til veðri slotar. Þarf að fara koma mér upp óveðursforða af kaffi .................
Jæja, var góð hugmynd að hræra í deig. Nú er vopnahlé milli systranna sem dunda við að forma bóndakökur og setja á bakstursplöturnar. Búið er að blása bankaspileríið af en ekki jólaballinu. En þessi aðventuveðurtörn fer að minna á óveðrið sem Gunnar Gunnarsson lýsir í bókinni Aðventu. Ekki vildi ég liggja úti við í smölun núna. Er búin að prófa að liggja í snjóskafli á þessum árstíma með gaddfreðinn jólamatinn. Hann er nú girnilegri upphitaður við dúkað jólaborð undir ljúfum jólatónum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.