Aðventa

Ár og dagur frá síðustu færslu hér, jamm. Ekki er það nú vegna jólahamfara - þær hamfarir hafa löngum siglt fram hjá heimilinu hér þó þær hafi stungið sér víða niður annars staðar. Enda þungt í heimasætunni þegar hún kemur úr heimsókn þar sem hafa verið borin full kökubox á borð. Hér skröltir ein kaka í hverju boxi og bergmálið heyrist um alla íbúð ef einhver hróflar við léttum boxunum. Eins gott að þau voru ekki úti á svölum í nótt. Þá hefði þau fokið um alla Mela með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Jólasveinarnir eru farnir að tínast til byggða og farnir að koma hér við aftur eftir nokkurra ára hvíld á okkur. Kristrún er farin að læra á kerfið og þá vilja stóru börnin ekki verða útundan. Jólasveinarnir hættu að heimsækja hana þegar hún komst að hinu sanna þá hún byrjaði í skóla. Var reyndar lengi hálffúl við þá bekkjarsystur sína sem sagði henni hið sanna í málinu. Um tíma tókst henni þó að kría fram frekari heimsóknir en fór þá að nýta sér samböndin við sveinka og senda hinar ólíklegust óskir á jólasveinaverkstæðið (og kvartanir þá hann uppfyllti ekki allar óskir). - Nú enn hefur sveinki gefist upp, setur eitthvað í alla tiltæka skó.

Um helgina fórum við á Árbæjarsafn að sjá jólasýninguna. Vorum stödd í veitingasal að fá okkur heitt súkkulaði og pönnsur þegar lopaklæddir sveinar mættu á svæðið. Þá langaði að sjálfsögðu líka í trakteringar eftir kuldann úti. En nei-i. Börnin sem höfðu verið með læti og stympingar í röðinni voru ekki lengi að stilla sér upp í hina fullkomnu biðröð, setja upp englasvipinn og "nei, ekki ryðjast fremst, þið verðið að fara aftast í röðina". Engin miskunn á þeim bæ.

Hér á bæ er búinn að vera pestargangur síðustu vikurnar og öll ritgerða- pg verkefnavinna legið niðri. Sem og allur jólaundirbúningur. Víða í kring er búið að setja upp glæsilegar skreytingar en veðrið hefur verið þannig að undanförnu að fína jólaskrautið í besta falli fýkur um koll en hangir í festingunum og í versta falli fýkur úti í buskann. Örugglega langt á haf út miðað við vindstyrkinn. Það hljóta að slæðast nokkrar jólaseríur og plasttré í togaravörpurnar út af Reykjaneshrygg á næstunni.

Jæja þarf að fara að rölta út á Hagaborg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband