23.10.2007 | 14:07
Ritgerðartörn
Sé að færslur hér hafa verið nokkuð gisnar þennan mánuðinn. Ég tók í síðustu viku aftur til við gömlu, góðu "Bara-ritgerðina" og náði nokkuð góðri skorpu. Hef síðan legið yfir verkefni í gær og í dag og andagiftin verið á frostmarki. Í gær fór loftvogin okkar góða í sögulegt lágmark (á 17 mánaða tímabili) en fer hækkandi núna, þó vísirinn sé nokkuð brokkgengur.
Helgin var góð. Veisla í Garðabænum á laugardaginn og gaman að sjá sístækkandi og nýttlærandi Garðbæingana ungu. Fórum stóran rúnt um Álftanesið í leiðinni og skoðuðum Bessastaði og ný hverfi í sveitinni þar. Vorum svo allt í einu komin inn í land Hafnarfjarðar, að elliheimilinu þar í bæ.
Á sunnudaginn hjóluðum við út í Nauthólsvík í góða veðrinu. Þar gengur mjög hægt að koma upp nýju kaffihúsi en það kom ekki að sök, við vorum vel nestuð enda verða sumir alveg hreint ótrúlega svangir og þyrstir um leið og heimilið fer í hvarf. En þarna hafa nokkrar framkvæmdir verið í rólegheitum. - Einhverjar gamlar gönguleiðir orðnar bílfærar og búið að girða af lóð HR.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.