11.9.2007 | 10:15
Enn úti í hlöðu
Sit enn og aftur úti í Þjóðarbókhlöðunni. Nenni því nú ekki mikið lengur. Nú er búið að skipta út tölvum og forritum hér sem er auðvitað af hinu góða. Verst er að ég ætlaði að vera snögg og nenni ekki að fara að setja mig inn í nýja útgáfu af office-pakkanum. Svo eru prentaramálin hér alveg sérkapituli. Með höppum og glöppum hvaða prentarar komi upp í valmynd og ekki gaman að hlaupa upp og niður um allar hæðir að finna gögnin sem maður var að senda út á prentarann. Sumt skilar sér seint og um síðir en annað bara alls ekki. Ekki batna málin hér á bæ ef maður þarf að hefta blöðin saman. Þó nóg sé af hefturum á borðunum virka fæstir þeirra. Í vor tók ég þátt í þjónustukönnun hér í safninu. Allar spurningar sneru að því að kanna hvort ónæði væri af öðrum notendum safnsins, s.s. hvort símar væru truflandi eða tal en engin hvort alltaf væri pappír til reiðu í ljósritunarvélum eða prenturum eða hvort sú þjónusta væri yfirhöfuð í lagi. Ég get leitt hjá mér samtöl og hljóðlátar hringingar en það er miklu verra að leiða pappírsleysi hjá sér. Nú og ekki var heldur spurt um þjónustu kaffistofunnar sem skiptir líka miklu máli. Þar er mikið metnaðarleysi í gangi þó það hafi nú skánað frá í vor. Helsta lesefni í rekkunum þar eru kosningabæklingarnir frá í vor. Ekki örvænta þó þið hafið misst af einhverjum í hamaganginum þá. Þetta liggur allt á kaffistofu Þjóðarbókhlöðunnar - fullir af loforðum og fögrum fyrirheitum. Hætt þusinu.
Athugasemdir
Iss piss, þeir ættu að taka Elko til fyrirmyndar. Við afgreiðsluborðið er þjónustukönnun þar sem m.a. er hægt að gera athugasemdir við klæðnað starfsfólksins! Ansi ítarleg könnun.
Og þetta reddaðist með hagnýtu, fæ allt saman metið :)
Jóhanna (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 00:02
Flott Jóhanna. Gangi þér vel í skólanum.
Salla sjálf (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 11:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.