Berjaþúfurnar

Góð helgi að baki, langt frá öllum formlegum útihátíðum. Það var þó smár vísir að hátíð á svæðinu þegar var kveikt í kestinum sem hafði að geyma tilfallandi spýtnarusl síðustu tveggja ára. Kösturinn var á aurum Rangár og brann vel í strekkingsvindinum á laugardagskvöldið. Einu gróðurskemmdirnar eftir þessa brennu voru nokkrar lúpínur en það sér ekki högg á vatni - svo þétt er breiðan þarna á aurunum. Ýmsar breytingar höfðu orðið á gróðri frá því við vorum síðast á ferð í bústaðnum. Til dæmis er tími blóðbergs liðinn þetta sumarið en tími berjanna runninn upp. Bláber voru orðin velþroskuð en nokkuð smá víðast hvar, sama með krækiberin en hrútaberin voru enn glerhörð þó þau væru búin að ná rauða litnum. Reyndar var nú slatti af grænjöxlum innan um. En það var berjahátíð í góða veðrinu; alsælar dömur röltu út á þúfurnar á morgnana og tíndu upp í sig í góða veðrinu eins og sjá má:

berjamor

Nú vonum við bara að berjalandið fái að vera í friði þetta árið en í fyrra mætti bóndi úr sveitinni og var búinn að vaða með berjatínu yfir bláberjalyngið áður en við komumst í að tína. Bauð reyndar kartöflur í skiptum fyrir berin en ég vona að hann láti garðinn sinn duga þetta árið og sé ekki að laumast í berjalönd inni á afgirtum lóðum.

Og svona var sólarlagið á sunnudagskvöldið:

DSC05051

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir kökuna í dag! :)

Ég held að ég sé búin að finna lausn á skólamálunum, vona það allavega :-)

Sjáumst á Hlöðunni...

Jóhanna (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband