Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Strætó-nostalgía

Fann þessa mynd í safninu mínu. Strætisvagnar Reykjavíkur keyptu þennan vagn nýjan til landsins í kringum 1970 eða upp úr því. Ég held hann hafi verið í akstri fyrir Bústaðahverfið svo til alla sína aksturstíð. Faðir minn ók honum í 15 ár á móti Jóni Jónssyni, starfsfélaga sínum. Og Jón í þó nokkurn tíma eftir daga föður míns. Loks voru eingöngu tveir vagnar orðnir eftir hjá SVR af þessari gerð. Þessum vagni var fargað en hinn gerður að safngrip. Miðað við lúxusvagnana sem nú keyra á götunum þykir þessi kannski ekki merkilegur, en hann skilaði sínu, fossvogsbúar gátu alltaf treyst á hann, - ég held honum hafi bara aldrei orðið misdægurt.

Ég eyddi drjúgum tíma í strætó á bernskuárunum. Stundum fengum við systkinin að fylgja pabba á vaktina og fórum þá hring eftir hring. Ýmislegt vakti furðu mína. Eitt var það hvernig foreldrar hótuðu börnum sínum með yfirvöldum (og bílstjórunum). Dæmi: "Sittu kyrr, annars hendir bílstjórinn þér út".  Pabbi minn var ekki trúverðugur sem grýla á börn og þá fylgdi oft: "Sérðu lögreglubílinn þarna. Löggan hendir þér út ef þú verður ekki stillt/stilltur núna". Sú kynslóð sem bjó við þessar hótanir er sú sem er með uppsteit við lögregluna um helgar.  Og sú kynslóð sem reynt er að kaupa til þess að nota þjónustu strætisvagna. Sem betur fer hafa greinilega flestir yfirunnið ótta sinn gagnvart þessum stéttum því mikill áhugi er hjá stúdentum að nýta sér strætisvagna sem samgöngumáta, a.m.k. þessar tvær vikur sem liðnar eru af skólaári. Það helst vonandi í vetur.

R14138 copy

Heimavinnandi í dag

Sit við tölvuna heima. Var að vona að málurunum á næsta húsi yrði gefið frí í tilefni rigningardags en engin miskunn hjá rigningarmagnúsi. Áfram með smjörið. Vinnulyftan er alltaf á ferð upp og niður. Ég gruna þá um að geyma fötuna niðri í garði og fara niður til að bleyta í penslinum. En ég vona að þessari vinnu fari að ljúka.

Var að setja myndir inn enn og aftur. Sumar eru af síðunni hennar Jóhönnu og fengnar að láni með góðfúslegu leyfi. Og munið svo að kvitta öðru hvoru fyrir kaffið í gestabókina. Bestu helgarkveðjur.


Nýjar myndir

Sit enn og aftur úti í draugahúsinu. Hér er ýmislegt búið að vera í skralli í morgun. Enginn notandaprentari hefur virkað og eitthvað í skralli í kerfinu líka. Og ekki bætir það ástandið að birgðir mínar af kaffibaunum eru búnar.

En myndir síðustu daga eru komnar inn. Nokkrar eru frá Gróttu á mánudaginn var - sólarlagsmyndir - en þangað fórum við í rölt og með nestiskörfuna góðu. Og á mánudaginn fórum við Arnheiður líka upp í Hallgrímskirkjuturn og þaðan eru nokkrar myndir. Að auki eru nokkrar myndir frá Keldum á Rangárvöllum en við komum þar við á leið í sveitina að sjá hvernig endurbyggingu gamla bæjarins miðaði. Nýju myndirnar eru í albúmi sem heitir ágúst2007 en aðrar myndir komnar í albúmið gamlar myndir.


Draugahúsið

Sit úti í Þjóðarbókhlöðunni að ýta þessum blessuðu ritgerðum mínum áfram. Er langt komin með Bárðar sögu og skila henni í næstu viku og þá get ég loksins byrjað á "bara"-ritgerðinni sem er nú búin að liggja heilt ár í geymslu og safna þykku ryklagi.

Þó gestum hlöðunnar hafi fjölgað síðustu dagana er alltaf jafnrólegt hér. Því er stjórnað með miklum laga- og reglugerðarbálki: " Það má ekki ...."

Hér má t.d. ekki heyrast í farsímum og oft hrekkur maður í kút þegar einhver ryðst út í stigagang með pípandi tækið í höndunum.

Það má ekki tala upphátt, - né neyta matar eða drykkjar nema niðri í kaffistofu. Ég viðurkenni að ég fer aðeins kringum þessi lög. Súkkulaðihúðaðar kaffibaunir slá á mestu kaffiþörfina milli mála. Og svo er gott að nota essemmessin til samskipta og útréttinga. Það gengur auðvitað ekki að vera alveg sambandslaus við umheiminn.

En auðvitað er þetta hinn besti staður og undan fáu að kvarta nema þessu ofantöldu.

Á morgun ætla ég að skipta um myndir í albúminu. Þið sendið mér nótu ef eitthvað lítur undarlega út því ég er enn að fikta og fikra mig áfram.


Hlaupið

Þá er nú Reykjavíkurmaraþonið að baki þetta árið. Við hlupum öll þrjá kílómetrana í góða veðrinu. Kristrún hljóp / gekk heilmikið sjálf en fannst mannfjöldinn í Lækjargötunni yfirþyrmandi og kom í mark í kerrunni. Við röltum svo heim eftir tjarnarbakkanum og þar var boðið upp á róður. Arnheiður reri á árabát með Helgu vinkonu sinni og svo fóru þær hvor á sinn kajakinn og fóru annan hring. Mjög vel til fundið. Við enduðum menningarneysluna í nýopnuðu Norræna húsinu og hlustuðum á músík. Góður dagur. Myndir komnar í albúmið.

Í gær var svo Melaskóli settur og Arnheiður er nú komin í sjötta bekk. Við mættum til skólasetningar; nýr skólastjóri og nýr kennari; þrír nýir krakkar í bekknum en sama kennslustofan. Að vanda var börnunum bent á að þau hefðu stækkað í sumar og þau boðin velkomin til vetrarstarfa.

Starfsemi Hagaborgar er líka að komast í fastar skorður eftir sumarfrí og flest barnanna á Putalandi komin aftur vel úthvíld eftir gott frí, alveg að rifna úr stolti yfir að vera ekki lengur á smábarnadeildunum.


Reykjavíkurmaraþon

Á morgun rennur stóri dagurinn upp - hinn árlegi hlaupadagur. Við fjölskyldan ætlum í 7% maraþonið - þ.e. þriggja kílómetra spottann. Þá verðum við komin nógu snemma í mark til að hvetja hina alvöruhlauparana. Ég óska öllum góðs gengis og ánægjulegs hlaups á morgun hvort sem þeir fylli 100%, 50%, 24% eða 7% flokkinn, nú eða álfunum eða glönnunum sem hlaupa í Vatnsmýrinni.

Vofa

Sit á Þjóðarbókhlöðunni innan um hinar vofurnar. Náði myndunum inn með því að skella þeim aftan við þær myndir sem fyrir voru, þ.e. að safna þeim öllum í einn sarp. Það hlýtur að vera önnur leið fær en leita hennar síðar. Það styttist óðfluga í að skólar hefjist og heimasætan á bágt með að ná því að skólinn hefjist strax næstu viku. Þá sest hún í sjötta bekk hvorki meira né minna.

Hjólatúr í góða veðrinu

Í gær fórum við Arnheiður að húsvitja í Kópavog. Fórum svo hjólandi og á línuskautum heim, það er, hvor okkar með sínum hætti. Að sjálfsögðu áðum við í Nauthólsvík en eftir það jókst mótvindur og við enduðum með að ganga síðasta spölinn heim. Ég er búin að setja inn nokkrar myndir úr þessari ferð okkar en gengur illa að gera þær sýnilegar.

Hjólatúr

Hjólið

Meiri kuldinn annars, sú stutta leitaði drjúga stund í morgun að bók til að taka með sér í leikskólann og tók loks: Nú er vetur í bæ. Það er meira að segja kominn haustlitur á einhverjar hríslur hér utan við Þjóðarhlöðuna þar sem ég sit í augnablikinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Labbitúr í góða veðrinu.

Lagði malbik undir fót í gær. Gekk fyrst upp á Hlemm með óhjákvæmilegu viðkomu í kaffihúsi á Laugaveginum. Tók strætó í Kópavoginn og arkaði heim þaðan. Hitti akkúrat á Gunnu systur á stoppustöðinni þar sem hún var á leið í heimsókn til mín vestur í bæ með Gunnar Egil í kerrunni. Því var upplagt að verða samferða þeim. Við áðum í Nauthólsvík, - ekkert nema ís og lapþunnt kaffi í boði í sundaðstöðunni. Kaffihúsið potast mjög, mjög, mjööööööööög hægt áfram. Ég sem hélt að borgin hefði ætlað að byggja nýtt hús með trukki. En kannski hefur ekki fengist nema þessi eini smiður til starfa?

Um helgina fórum við á berjaþúfurnar austur á Rangárvöllum og hreinsuðum þær eins og hægt var. Veðrið var eins fallegt og gerist á björtum sumardögum og viðraði vel á þau sem komu í heimsókn á sunnudeginum og röltu með okkur.

Eins og sjá má er kominn smá spurningalisti hér til vinstri á síðuna. Þetta er kannski ekki hávísindalegt uppsett en ég er að skoða hvernig þetta virkar nú allt saman. Svarið endilega (ég rek ekki svörin).

Kaffibollinn búinn og þarfari verk bíða.


Ný Kópavogsbók

Í sumar gaf Bókasafn Kópavogs út bók með endurminningum gamalla Kópavogsbúa. Ég fylli orðið þann flokk og á tvo kafla í téðri bók. Mæli með henni við áhugamenn um forna og horfna búskaparhætti á Kópavogshálsi og á Kársnesinu. Held bókin fáist bara í Bókasafninu og kostar að ég held bara 2000 kall. En góð lesning í síðustu helgarferðir sumarsins.

minningabokfram2

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband