Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Heima í dag

Eftir góða törn er smá törn í hlé. Kristrún er búin að vera kvefuð undanfarna daga og hóstinn var mjög ljótur í gærkvöldi. Hún fær því að vera í fríi í dag og ég skipulegg lokatörnina við ritgerðina. Ég hélt hún yrði róleg með pleimódótið en það er öðru nær. Hún hefur lítið séð af mér undanfarna daga og krefst nú allrar athygli. Reyndar var hún heillengi áðan að klæða sig upp á til að komast í snjóinn úti á svölum en var þar ekki nema í 25 sekúndur. Svo dundaði hún aðeins með landakort yfir Austurríki - mjög skrýtið kort - öll þessi strik út um allt á kortinu - Eru vegirnir í Austurríki gulir og rauðir? Hmmmm. Skrýtnir vegir þar. Svo hlustum við á geisladiskasafnið sem hún fékk í afmælisgjöf - fimm geisladiskar með alls konar lögum. Hana langar reyndar bara að hlusta á Póstinn Pál en hann er ekki enn kominn fram, enda við bara á diski tvö ennþá. En við höfum daginn fyrir okkur.

Verst hvað það er langt til þín, Jóhanna. Ég vildi gjarnan vera kominn á laugarbakkann núna í hitanum. Bestu kveðjur frá okkur.


Lokatörnin í ritgerðinni

Sit nú á bókhlöðunni myrkranna á milli - hef frest til 9. febrúar til að klára þessa ritgerð og skila henni þá. Sit oft til tíu á kvöldin en þá er öllum hent út - með nokkrum aðvörunum áður. Lokaaðvörunin er í tóninum "Þú skalt bara telja þegar ég hendi þeim út" - er það ekki úr Roy Rogers lagi Stuðmanna frá því í eldgamla?

Samdægur

Aldeilis orðin takkaglöð, - bara tvisvar á dag. Sit úti á bókasafni enn og aftur og var að ljúka við einn kaflann í ritgerðinni og senda hann frá mér. Fæ hann eflaust og vonandi útkrotaðan til baka. En fer að sigla heim - orðin glorsoltin - var aðeins of sein niður í matstofu áður en lokaði þar áðan og þar er engin miskunn. Lokað á mínútunni og ekkert víl. Því miður eru engir sjálfsalar og ég nenni ekki út á bensínstöð.

Gaman að fá kveðjurnar þínar, Feddi, og hafðu þar sem best í stórborginni. Veðurfar og snjóalög eru farin að minna á Álfhólsveginn í denn. Vantar bara að loka götum í bænum með "Varúð, sleðabrekka". Ég væri ennþá til í góða salibunu niður Álfabrekkuna og ofan í Fossvogsdalinn.


XXVIII

Tekin til aftur við ritgerð eftir gott helgarfrí. Ein árshátíð að baki á laugardagskvöldið og í gær skruppum við í sund útá Seltjarnarnes. Að vísu var ölduhæðin einn metri í sundlauginni og flestir heitu pottarnir kaldir, sem og sturturnar - en bara mjög hressandi. Þá komu Jóhanna og Gunnar Egill að kveðja okkur en þau eru á leið í sólina á Flórída og verða þar næstu þrjá mánuði.

Þorrinn

Þorri karlinn heilsar hressilega þetta árið. Þrátt fyrir allt tal um óveður og að skólabörnum væri ekki hætt á að mæta í skóla fóru stelpurnar í skóla og leikskóla í morgun. - Veðrið var slæmt á að horfa en fínt þá út var komið. Svo sit ég ein heima í ritgerðarvinnu og til mótvægis við bylinn er diskurinn í græjunum með nýsjálenskan fuglasöng. Og svo loka ég augunum og er komin í gróskumikinn frumskóg með háværum fuglasöng.

bókasafnið

Sit þessi kvöldin á bókasafninu á Melavellinum. Er í skorpu í ritgerðinni einu sönnu og ætla að klára hana á næstu tveimur vikum. Er orðinn mjög harðsvíraður gestur, laumast með drykki og stundum sykur til að viðhalda orkunni. Hef ekki lagt í að lauma inn kaffibolla - en bryð kaffibaunir stundum. - Held út í nóttina.

Myndir

Nýjar myndir í albúminu nýjasta nýtt. Barnaafmælin um síðustu helgi.

Kári í jötunmóð í dag

Farið að hægjast um eftir annríki. En þetta hafa verið ánægjulegar annir - eins árs afmælið hans litla frænda á föstudag og styttir í búferlaflutninga á þeim bæ.

Fjögurra afmælið var á sunnudaginn og hér skriðu mörg kríli um gólf - fjögur um eins árs, þ.e. tveir tíu mánaða, ein ellefu og svo Gunnar Egill nýorðinn tólf mánaða og eina smákrílið sem enn getur gengið sjálfur. Og ekki nóg með það heldur prílaði hann upp á barnastóla og var stoltur af. En ekki jafnánægður þegar móðir hans kippti honum niður!

En afmælisbarn sunnudagsins vaknaði snemma á þessum stóra degi og var mjög spennt allan daginn. Ætlaði svo aldrei að ná sér niður um kvöldið - en datt loks útaf örþreytt. Hefur helst viljað dunda heima í gær og í dag með fína dótið sitt - en er nú á Hagaborg.

Í gær var svo frídagur í Melaskóla en Arnheiður átti að vinna heimaverkefni um Norðurlönd - og dagurinn fór í það. Skrifaði smáritgerð um Finnland. Og við fundum það út að frægustu Finnarnir væru Sibelius, Lordi, Artti Tuuri, Múmínálfarnir og Aalvar Aalto. Þótt ólíkir séu hafa þeir þó allir borið hróður lands síns út um heimsbyggðina.

Búin að vera læti í veðrinu í nótt. Stundum voru miklir skruðningar uppi á þaki. Sem betur fer voru það ekki plötur að fara - heldur klakastykki að renna niður. Sest við ritgerðina hér og nú.


Litli frændi orðinn eins árs

Þá er uppáhaldsfrændi orðinn eins árs. Til hamingju með daginn Gunnar Egill. Og svo styttist í fjögurra ára afmælið hér á bæ en það brestur á nú á sunnudaginn. Kristrún er aldursforsetinn á sinni deild á Hagaborg og það er auðvitað mjög spennandi að verða fyrst til að ná þessum eftirsótta aldri. Hún bíður líka spennt eftir því að hækka um deild því fjögurra ára börnin eru á annarri deild en verður að sjálfsögðu áfram með þriggja ára púkunum. Við vonum bara að vel viðri á sunnudaginn en loftvogin er í mjög lágri stöðu þessa dagana.

Fleiri myndir

Setti inn myndir frá helginni. Því miður komumst við ekki nema þetta eina skipti á Tjörnina í þetta skipti. Vona það eigi eftir að frjósa meira í vetur. Það er enn jafn gaman á skautum og það var fyrir aldarfjórðungi. Litla daman var heima frameftir degi - var með hitavott í nótt en var orðin eldhress og hundleið á mömmu sinni um hádegið. Var nú ekki tilbúin í leikskólann en vildi fara útí sleðabrekku við sundlaugina. Fór nú endanum á leikskólann á snjóþotu. Í dag átti líka að verða fyrsti danstíminn. Það styttist í fjögurra ára afmælið - á sunnudaginn rennur sá stóri dagur upp.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband