Enn titrar jörð

Sem betur fer fara líkur á öðrum stórum minnkandi. Enn er þó titringur. Áðan glamraði í glerskápnum þar sem við geymum glös og borðbúnað. Heimasætan er ekki róleg og eiginlega í startholunum að hlaupa út. Sem betur fór voru börnin á Hagaborg úti að leika sér og gerðu sér ekki grein fyrir ósköpunum. Við vonum að þetta fari að ganga yfir fyrir austan.

Jarðskjálftinn

Vá, þessi var sterkur. Okkur Arnheiði brá svo að við vorum komnar út áður en skjálftinn gekk yfir en sem betur fer gekk hann samt fljótt yfir. En allt hefur hangið uppi í hillum og á veggjum. Höldum út á Hagaborg. Hvernig ætli litlu gormunum hafi orðið við? Góða ferð heim, Jóhanna og Gunni.

Mæ á fljúgandi ferð

Alltaf nóg við að vera á þessum bæ.

Þann 17. maí náði húsbóndinn fimmtugsaldri og gerðum við okkur nokkra glaða daga af því tilefni. Fórum út að borða með fjölskyldunni á sjálfum afmælisdeginum sem bar upp á laugardag. Daginn eftir var kaffi og meððí fyrir gesti og gangandi. Og svo þann þriðja í afmælinu var fiskisúpa á Barónsstíg fyrir starfsfélaga afmælisbarnsins.

Um nýliðna helgi vorum við fyrir austan í sveitasetrinu og nutum veðurblíðunnar og fuglasöngs. Tókum með okkur sjónvarp austur en vorum búin að fá loftnet uppsett í fyrrasumar. Að sjálfsögðu vildi heimasætan sjá söngvakeppnina og gekk það allt eftir. Helgin fór annars í boltaleiki, göngutúra, steinullartínslu og Parísardaga 1968, nýjustu bók Sig. Pálssonar. Mjög forvitnileg.


Vorið í stuttri heimsókn

Fallegt veður þessa dagana - en á því miður að kólna um helgina. Í gær birtist krían á Reykjavíkurtjörn og alltaf gaman að sjá hana, en betra að vera þá hjólandi með viðeigandi höfuðbúnað.

Mismargir tugir fyllast þessa dagana - í gær var það sexfaldur tugur og á laugardaginn fimmfaldur. Þá verður líka hátíð í Bodö. Vona að þið hafið átt góða heimferð, strákar. Sit í Árnagarði við skriftir þessa dagana.


Aukaföllin

Sit með blessaða ritgerðina mína að berja hana í bókarkafla. Úti er blessuð blíða. Þarf að setjast út á svalir - en verst hvað hunangsflugurnar sækja í pappírinn. Í útvarpinu er verið að rifja upp söguþráð myndarinnar um Paradísarbíóið á Sikiley. Ohhh, mig langar að sjá hana aftur.

Helgarfrí

Nú erum við komin aftur til jarðar sagði sú stutta þegar Herjólfur lagði að bryggju í Þorlákshöfn í gærkvöldi. Það var mjög gott að hafa fastalandið aftur undir fótum eftir þriggja tíma siglingu og dálítið órólega til að byrja með.

Sigldum frá jörðinni á föstudaginn í miklu blíðskaparveðri. Spegilsléttur sjór og sunnlensku fjöllin skörtuðu sínu fegursta. Framundan var þriggja daga handboltabolt stúlkna - síðasta mót vetrarins. Það voru leikir í gangi frá því snemma á morgnana og frammá kvöld en stelpurnar gátu líka kíkt aðeins á bæinn. Við fjölskyldan kíktum á hraunið og Eldfellið og röltum á Skansinn. Og röltum og röltum um bæinn með Kristrúnu. Skildum bílinn eftir í Þorlákshöfn og nýttum skóna vel í Eyjum. - Góð helgi og dauðþreyttir handboltagarpar sem stútfylltu Herjólf í gær (eða skutfylltu).


Heimaseta (heima-z ?) í dag

Við Kristrún erum heima við annan daginn núna, - leikskólinn er reyndar lokaður en hún hefur líka náð sér í einhverja umgangspestina sem vonandi gengur yfir fyrir helgina því þá er handboltamót á dagskránni hjá heimasætunni. Geisladiskurinn í tækinu núna eru 100 barnalög - mjög fínir diskar. Allt er betra en tannbrjótarnir tveir.

Nú er sumar og gumar kátir

Byrjaði sumarið í Haukadal vestur í Dýrafirði. Þó Gísli karlinn sé löngu dauður, svífur andi hans enn yfir vötnum í dalnum, eins og sjá má hér.

Vetrarlok í dag

Síðasti vetrardagur í ferð og á morgun er einn mesti hátíðisdagur ársins, sjálfur sumardagurinn fyrsti. Í minningasjóðnum bregður fyrir svipleiftrum af skjálfandi skátum á Digranesvegi og endalausum ræðuhöldum á Rútstúni. Sem betur fer hafa ræðuhöld að mestu verið aflögð á slíkum tyllidögum.

En deginum verður fagnað í Lundúnaborg, vona ég, til hamingju með daginn, Feddi. Whistling- Þú hefur nú ekki verið gamall þegar þú færðir þig til afmælisdagabókar minnar af skriftinni að dæma. Smile


Myndir

Loksins, loksins, búin að koma inn nýjum myndum. Auðvitað er búið að breyta kerfinu en vona það gagnist enn í myndasjóv. Góða helgi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband